Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Aðgerðaráætlun í efnahagsmálum

   5. ágúst 2021     4 mín lestur

Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið. Sýn sem vefur saman samfélag og náttúru þannig að hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en þeirra sem eru með verðmiða. Því stefnum við að sjálfbæru velsældarhagkerfi, samfélagi þar sem öll geta blómstrað á eigin forsendum í sátt við umhverfi sitt. Við viljum hugsa til framtíðar og tryggja jöfn tækifæri í sjálfvirknivæddu samfélagi, þar sem skapandi lausnir ráða för í opnu, stafrænu og lýðræðislegu samfélagi. Baráttan gegn spillingu, fákeppni, einokun og peningaþvætti mun leika þar lykilhlutverk.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Fyrstu skrefin
  • Á kjörtímabilinu
  • Til framtíðar

Fyrstu skrefin

Við viljum að stjórnvöld skilgreini samræmda lágmarksframfærslu svo það sé skýrt að enginn þurfi að líða skort. Við viljum hækka persónuafslátt strax og hefja undirbúning að því að hann verði útgreiðanlegur. Barnabætur eiga að fylgja barninu því fyrstu skrefin okkar eru þau mikilvægustu.

Við viljum byggja upp stigvaxandi skattkerfi þar sem lægstu skattar lækka og hæstu skattar hækka. Þannig eflum við starfsemi nýsköpunar og heilbrigða samkeppni en vinnum gegn fákeppni og einokun. Við viljum víðtæka endurskoðun á opinberum útgjöldum til að skapa rými til nýrra útgjalda án þess að hækka þurfi heildarskatta eða að ríkisútgjöld vaxi óstjórnlega. Þannig eykst svigrúm innan ríkissjóðs til að bregðast við áskorunum samtímans og forðast má að sitja uppi með staðnað kerfi þar sem allt er fast í óbreytanlegum útgjöldum og fátt nýtt hægt að gera.

Við viljum efla gæða- og eftirlitsstofnanirnar sem tryggja heilbrigði og sanngirni hagkerfisins. Skattrannsóknarstjóri verður tekinn úr skúffunni sem embættinu var troðið í á kjörtímabilinu og blásið til stórsóknar gegn peningaþvætti. Samkeppniseftirlitinu og Fiskistofu verður veitt fjármagn til að sinna eftirliti sínu og framtíð Neytendastofu tryggð. Umboðsmanni alþingis verður aftur gert kleift að hefja frumkvæðisrannsóknir.

Við viljum horfa til framtíðar með nýrri atvinnustefnu þar sem áhersla verður á menntun, grunnrannsóknir, hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi en fyrstu skrefin eru að tryggja nægt framboð á störfum við hæfi, valdefla einstaklinginn með tækifærum til nýsköpunar og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu. Aukinn jöfnuður er lykilatriði í efnahagsaðgerðum um allan heim, nýfrjálshyggjan hefur runnið sitt skeið á enda. Efnahagsstefna verður að markast af jöfnuði, enda nýtist jöfnuður hagkerfinu öllu til heilbrigðs vaxtar. Vaxtar sem er sjálfbær en ekki öfgakenndur.

Á kjörtímabilinu

Við viljum hækka persónuafsláttinn í skrefum og greiða út til þeirra sem nýta hann ekki. Að sama skapi viljum við einfalda skatta- og almannatryggingakerfin til að fækka og draga úr skerðingum. Við viljum tryggja gagnsæi skattkerfisins og stuðla að skilvirkni með stafrænum lausnum sem hægt er að einfalda og bæta verulega.

Við viljum tryggja að ný atvinnustefna verði innleidd á kjörtímabilinu. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Það þarf öfluga, sjálfbæra og græna, innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess að koma til móts við áskoranir framtíðarinnar. Við viljum ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið.

Við viljum endurskoða lífeyriskerfið í heild sinni og koma af stað blöndun á gegnumstreymiskerfi og séreignarsparnaði á kjörtímabilinu, til þess að sjálfbærni lífeyrissjóðakerfisins verði tryggð. Samhliða þurfa atvinnustefna og breyttir atvinnuhættir að tryggja rétt á símenntun með sveigjanleg starfslok og styttri vinnutíma.

Við viljum endurhanna húsnæðiskerfið, enda húsnæðismál stærsta kjaramál flestra fjölskyldna og einstaklinga og því grunnstoð í allri mörkun efnahagsstefnu. Í þeirri vinnu þarf að nýta úrbætur sem lagður hefur verið grunnur að með sérstakri áherslu á óhagnaðardrifin leigufélög. Í stað þess að stoppa í götin á núverandi kerfi þarf að hugsa það heildstætt og með sveitarfélögum byggja upp nýtt kerfi frá grunni sem nýtist fólki.

Píratar leggja áherslu á velsældarhagkerfið sem krefst þess að áherslan á hagvöxt landsframleiðslu minnki og fleiri mælikvarðar verði teknir með í reikninginn.

Grænvæðing efnahagslífsins og uppbygging hringrásarsamfélags verður að vera grundvöllur efnahagsstefnu komandi ríkisstjórnar. Þessa stundina er Evrópusambandið í óðaönn við að innleiða viðbætur við reglur og tilskipanir, auk nýrra reikningsskilareglna fyrir atvinnulífið, sem miða að því að auka sjálfbærni. Þetta mun hafa áhrif á alla efnahagsstefnu í okkar heimshluta og Ísland verður að vera með frá byrjun, en ekki bregðast við eftir á með hálfkáki.

Til framtíðar

Til framtíðar viljum við umbreyta stuðningskerfum ríkisins í skilyrðislausa grunnframfærslu. Fyrsta skrefið verður að greiða út persónuafslátt til hvers einstaklings, og draga úr skilyrðingum og skerðingum frá barnabótum til lífeyris. Arðurinn af auðlindum og skattlagning hagnaðar, hálauna og ofurauðs er grunnforsenda þess kerfis. Samspil peningastefnu og opinberrar fjármálastefnu leikur þar mikilvægt hlutverk.

Við viljum innleiða kvikara skattkerfi. Að skattar verði gerðir upp sjálfkrafa og öll kerfi virki í rauntíma. Við viljum skattleggja meira af auði og arði en minna af launum og eðlilegri neyslu. Þá verður öll mengun skattlögð í rauntíma.

Hagkerfisbreytingar snerta fleiri svið þjóðlífsins. Því viljum við innleiða sveigjanlegri atvinnu-, mennta- og heilbrigðisstefnu. Atvinnustefna og breyttir atvinnuhættir, m.a. vegna tækniþróunar, krefjast áherslu á símenntun sem þarf að innleiða í samhengi við breytingu vinnutíma og atvinnutengda starfsþróun. Hröð tækniþróun og sjálfvirknivæðing kallar jafnframt á að fólki verði ætíð tryggður möguleiki á endurmenntun.

Allar efnahagsaðgerðir og öll atvinnumál þurfa að byggjast á sjálfbærni samfélagsins í heild. Loftslagsváin krefst mikilla opinberra fjárfestinga sem skapa munu tækifæri til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Kostnaðurinn skilar sér margfalt til baka til langs tíma. Umbreytingarferlið sem hófst sem viðbragð við heimsfaraldri mun halda áfram og eflast til að bregðast við umhverfismálum.

Stefnan byggir á: