Kosningastefna Pírata 2021 - Menntamál
Menntun er undirstaða framfara. Til að tryggja framfarir til framtíðar þarf menntakerfið að vera búið undir þær samfélagslegu breytingar sem fram undan eru. Það gerum við með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í menntakerfinu, setja nemandann í forgrunn, styðja við starfsfólk og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.
Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is
Nánar
- Gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi
- Aukinn sveigjanleiki
- Nemandinn í forgrunn
- Færri próf og minni páfagaukalærdómur
- Frjálst, opið og lýðræðislegt menntakerfi
- Stuðningur við starfsfólk
- Uppfærum menntakerfið
- Framfærsla nemenda
- Öryggi frá ofbeldi og áreitni
- Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla
- Metum menntunina
Gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi
Stuðlum að gagnrýnni hugsun nemenda og eflum læsi þeirra í víðum skilningi; til að mynda upplýsinga-, fjölmiðla- og fjármálalæsi og getu nemenda til að meta trúverðugleika heimilda. Í öllum námsgreinum á öllum skólastigum á kennsla að taka mið af nýjustu þekkingu og vísindum.
Uppfærum menntakerfið Endurskoðum aðalnámskrá í breiðu samráði við nemendur, kennara og aðra í skólasamfélaginu og leggjum áherslu á nám á forsendum nemandans. Byggjum upp námskerfi sem miðar að samvinnu frekar en samkeppni. Aukum aðgengi að verknámi um allt land og vinnum að því að endurskoðuð námskrá endurspegli breytingarnar sem fram undan eru, s.s. í atvinnu og iðnaði vegna sjálfvirknivæðingar og loftslagsbreytinga.
Aukinn sveigjanleiki
Aukum sveigjanleika í skólatíma nemenda með tilliti til heilsu þeirra og velferðar. Skilin milli skólastiga (leik-, grunn-, framhalds- og háskóla) eiga að vera sveigjanleg, svo nemendur geti fengist við það nám sem hentar þroska þeirra og menntun hverju sinni án þess að skipta um skólastig. Tryggjum og aukum aðgang að sí- og endurmenntun samhliða sjálfvirknivæðingu og breyttum starfsháttum.
Nemandinn í forgrunn
Menntakerfið á fyrst og fremst að þjóna menntun hvers nemanda í samræmi við áhuga hans og getu. Við viljum að skólar á öllum skólastigum leitist við að kynna nemendum sínum fjölbreytt menntunarsvið, örva áhuga þeirra og styðja þá í að menntast á eigin forsendum. Menntakerfið á að stuðla að góðri heilsu og velferð nemenda, bæði líkamlegri og andlegri; t.a.m. með námsframboði, því að tryggja aðgengi að sálfræði- og læknisaðstoð og taka tillit til veikindatengdrar fjarveru við námsmat. Við viljum tryggja heilnæmt og öruggt umhverfi fyrir alla nemendur og aðgengi að námi fyrir öll, óháð aðstæðum þeirra. Við viljum sérstaklega gæta að aðgengi fatlaðs fólks að námi og eins byggja upp nauðsynleg stuðningskerfi fyrir fólk með annað móðurmál á öllum námsstigum. Aukum aðgengi að háskólanámi með því að gera nám sveigjanlegra og þannig að fólk geti nálgast það í sinni heimabyggð.
Færri próf og minni páfagaukalærdómur
Tæknin hefur gert mannkyninu kleift að fletta upp öllum heimsins fróðleik með örfáum smellum. Þessi þróun mun halda áfram og menntakerfið verður að taka mið af því. Drögum úr vægi utanbókarlærdóms og prófa í menntakerfinu en leggjum þess í stað aukna áherslu á símat, reynslumiðað nám og reglulegri endurgjöf. Nemendur á eldri skólastigum skulu þannig hafa meira val um það hvort þeir þreyti próf eða sæti símati.
Frjálst, opið og lýðræðislegt menntakerfi
Skólar og kennarar ættu að hafa frelsi til að móta kennslu sína innan víðs ramma aðalnámskrár. Leyfum nemendum að taka þátt í mótun eigin námskrár eftir því sem þeir hafa þroska til og festum í sessi samráð við ungmennafélög og hagsmunafélög stúdenta. Aukum tækifæri nemenda, kennara og forráðamanna til lýðræðislegrar ákvarðanatöku þegar kemur að skólastarfi. Sem allra mest af námsefni allra skólastiga ætti að vera opið menntaefni og aðgengilegt á netinu, á notendavænu formi og nemendum að kostnaðarlausu. Námsefni og námsgögn í skyldunámi skulu undantekningalaust vera nemendum án endurgjalds.
Stuðningur við starfsfólk
Styðjum við starfssamfélög kennara og faglegu þekkingarmiðlunina sem þar á sér stað. Gerum langtímaáætlun í menntamálum og uppbyggingu menntainnviða, svo sem bygginga, námsgagna og launastefnu, og endurskoðum hana reglulega. Viðurkennum verðmætið sem felst í störfum kennara þannig að laun og önnur kjör kennara endurspegli samfélagslegt mikilvægi þeirra.
Framfærsla nemenda
Tryggjum öllum fjárhagslega möguleika á að stunda það nám sem hver ræður við, án tillits til efnahags, búsetu og aldurs. Höldum áfram að færa okkur úr námslánakerfi yfir í styrkjakerfi. Tryggjum stúdentum viðeigandi framfærslu sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks þannig að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af framfærslu sinni.
Öryggi frá ofbeldi og áreitni
Á sama hátt og börnum ber skylda til að sækja skóla þá bera stjórnvöld skyldu til að tryggja öryggi barna og að þau verði ekki fyrir skaða af sinni skólagöngu. Tryggjum að til staðar séu verkferlar til að fást við úrlausn ágreiningsmála og að í öllum skólum séu virkar viðbragðsáætlanir við einelti. Samhliða þessu þarf að styrkja samstarf milli heimilisins og skólans.
Brúum bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla
Ríki og sveitarfélög vinni saman að því að pláss á leikskóla standi til boða strax að loknu fæðingarorlofi svo hægt sé að lögfesta leikskóla sem valkost fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri.
Metum menntunina
Tryggjum að fólk af erlendum uppruna fá menntun sína og starfsréttindi viðurkennd hér á landi. Að sama skapi skal sjá til þess að þekking nemenda af erlendum uppruna komi fram í hæfnismati, óháð móðurmáli þeirra.
Stefnan byggir á: Almenn menntastefna