Kosningastefna Pírata 2021 - Fjölmiðlar
Óháðir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því að veita stjórnvöldum aðhald, miðla upplýsingum til almennings og veita vettvang fyrir upplýsta þjóðmálaumræðu. Við viljum tryggja fjölmiðlafrelsi með því að bæta réttarvernd blaðamanna, tryggja rekstrarlegt og lagalegt umhverfi fjölmiðla og að auka möguleika þeirra til tekjuöflunar, m.a. með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði.
Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is
Nánar
- Heildarstefnumótun sem tekur á laga- og rekstarumhverfi fjölmiðla
- RÚV af auglýsingamarkaði
- Stöndum vörð um réttindi blaðamanna
- Skattlagning netrisa
- Upplýsingafulltrúar beri nafn með rentu
Heildarstefnumótun sem tekur á laga- og rekstarumhverfi fjölmiðla
Hefjum heildarstefnumótun til að styrkja fjölmiðla á Íslandi og auðveldum þeim aðhalds- og eftirlitshlutverk sitt með stjórnvöldum. Gerð heildstæðrar stefnu er forsenda breytinga í málaflokknum, því bútasaumslausnirnar hafa hyglað stærri fjölmiðlum til þessa. Stefnan mun taka tillit til allra þátta í lagalegu og fjárhagslegu umhverfi fjölmiðla af öllum stærðum.
RÚV af auglýsingamarkaði
Vera Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er ekki í samræmi við hlutverk þess og veikir tekjuöflunarmöguleika annarra fjölmiðla. Tökum RÚV af auglýsingamarkaði og tryggjum þess í stað næg framlög til að standa straum af innlendri dagskrárgerð, öryggishlutverki (m.a. fyrir sjófarendur), menningar- og menntahlutverki og_ _rekstri fréttastofu. Afnemum nefskattinn sem leggst hlutfallslega þyngst á þau sem minnst hafa og fjármögnum RÚV þess í stað með hefðbundnum sköttum.
Stöndum vörð um réttindi blaðamanna
Höldum áfram vinnunni sem hafin var með þingsályktun um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Drögum úr réttarfarslegum hindrunum á tjáningarfrelsinu með því að gefa jafnan áfrýjunarrétt í tjáningarfrelsismálum og aukum gegnsæi um málskostnað þegar fjölmiðlar eru látnir bera kostnaðinn af málshöfðunum gegn þeim.
Skattlagning netrisa
Stærstu iðnríki heims hafa náð samkomulagi um að skattleggja netrisa, sem taka til sín sífellt meira auglýsingafé á ári hverju. Ísland á að feta í sömu fótspor og fjármagna m.a. þannig stuðning til íslenskra fjölmiðla.
Upplýsingafulltrúar beri nafn með rentu
Taka þarf hlutverk upplýsingafulltrúa á vegum hins opinbera til endurskoðunar. Setja þarf upp stöðu gagnsæisfulltrúa og samræma starfsreglur upplýsingafulltrúa og sjá til þess að þeir útvegi fjölmiðlum allar þær upplýsingar sem þeir kalla eftir, þegar þeir kalla eftir þeim, í samræmi við upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Stefnan byggir á: Fjölmiðlastefna