Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Húsnæðismál

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Öruggt húsaskjól er grunnþörf. Píratar telja að stjórnvöld eigi að beita sér af krafti í húsnæðismálum og sjá til þess að landsmenn hafi þak yfir höfuðið. Píratar vilja tryggja fólki raunverulegt val um búsetu sína; hvort sem það er í gegnum eign, leigu eða úrræði á vegum hins opinbera. Því þarf að stórefla stöðu leigjenda, byggja ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og aðra utan húsnæðismarkaðar og tryggja hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðari byggðum landsins. Gætum sérstaklega að húsnæðisöryggi þeirra sem Covid-19 hafði mikil áhrif á.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Komum húsnæðismarkaði í jafnvægi með stórauknum framlögum til nýrra íbúða
  • Húsnæði fyrir námsfólk
  • Búsetuúrræði fyrir öll sem þurfa
  • Eflum réttindavernd leigjenda
  • Skylduhlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum
  • Heilnæmt húsnæði

Komum húsnæðismarkaði í jafnvægi með stórauknum framlögum til nýrra íbúða

Verðþróun á húsnæðismarkaði hefur lengi einkennst af framboðsskorti sem hefur orsakað miklar verðhækkanir á húsnæði umfram verðlag. Lögum húsnæðismarkaðinn og komum böndum á fasteignaverð og leiguverð með því að tryggja að lágmarki 2000 nýjar íbúðareignir á ári til ársins 2040 í samræmi við fyrirséða þörf. Að auki við það þarf að vinna upp núverandi óuppfyllta íbúðaþörf með því að tryggja stofnframlög til byggingu a.m.k. 5000 íbúða til viðbótar. Ný ferðamannabylgja sem fylgir afléttingu sóttvarnaraðgerða er líkleg til þess að valda álagi á húsnæðismarkað aftur og er því enn mikilvægara að bregðast strax við þeim húsnæðisvanda sem enn er til staðar.

Húsnæði fyrir námsfólk

Aukum möguleika ungs fólks á að finna sér húsnæði við hæfi með því að auka framlög til byggingu íbúða fyrir námsfólk um allt land. Tryggjum möguleikann á heimavist fyrir framhaldsskólastigið um allt land, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæði fyrir öll sem þurfa

Tryggjum réttinn til viðeigandi og öruggs húsnæðis fyrir öll sem þurfa. Vinnum að því að fjölga búsetuúrræðum sem koma til móts við þarfir mismunandi hópa sem á þurfa að halda og vinnum að fjölgun almennra íbúa. Leitum leiða til að horfa meira til raunverulegrar þarfar við val á félagslegu húsnæðisformi og styðjum sveitarfélögin til að axla ábyrgð gagnvart notendum. Í endurhönnun húsnæðiskerfisins þarf líka að efla stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög. Styðjum við frekari uppbyggingu á vegum húsnæðissjálfseignarstofnanna með því að tryggja áfram vel fjármögnuð lán á hagstæðum kjörum.

Eflum réttindavernd á leigumarkaði

Tökum húsaleigulög til heildarendurskoðunar með það að markmiði að tryggja réttindi leigjenda og stuðla að heilbrigðari og sanngjarnari leigumarkaði. Styrkjum leigjendasamtök til að aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð og lög og réttindi leigjenda. Búum til efnahagslega hvata fyrir langtímaleigusamninga og bönnum tengingu verðtryggingar í leigusamningum.

Skylduhlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum

Félagsbústaðir eiga að vera valkostur fyrir öll sem þurfa í sveitarfélögum landsins. Látum sveitarfélögin axla jafna ábyrgð á félagslegum úrræðum og skilyrðum lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum yfir tiltekinni lágmarksstærð.

Heilnæmt húsnæði

Húsnæði á að vera griðastaður einstaklinga og fjölskyldna. Grípum til aðgerða til að tryggja að allt íbúðarhúsnæði sé heilnæmt og brugðist hratt við þegar út af ber. Komum upp miðlægum gagnagrunn um ástand og viðhald fasteigna og tryggjum að reglur um byggingu og viðhald þeirra taki mið af íslensku veðurfari. Gerum átak í endurbótum á því húsnæði sem er útsett fyrir rakaskemmdum og myglu.

Stefnan byggir á: Húsnæðisstefna