Kosningastefna Pírata 2021 - Aðgengi að réttlæti
Við viljum tryggja jafnan aðgang fólks að réttarkerfinu með því að gefa einstaklingum möguleika á að sækja rétt sinn eða verja sig án þess að kostnaður eða flækjustig séu veruleg hindrun.
Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is
Nánar
- Smákröfudómstóll
- Eflum Neytendasamtökin
- Bætur til þolenda afbrota
- Lögskilnaður
- Bætum stjórnsýslu í forsjár- og umgengnismálum
- Gjafsókn
- Ráðgjafastofa almennings
- Úrbætur á fasteignamarkaði
- Meiðyrðamál
Smákröfudómstóll
Við viljum setja á fót smákröfudómstól þar sem hægt yrði að útkljá ágreining um kröfur upp að ákveðinni fjárhæð til að auðvelda fólki aðgang að réttarkerfinu án verulegra fjárútláta.
Eflum Neytendasamtökin
Við viljum efla opinbera aðstoð við starf Neytendasamtakanna vegna aðstoðar við ágreining milli leigutaka og leigusala. Tryggjum að allir málsaðilar skilji rétt sinn og að tungumálaerfiðleikar valdi því ekki að fólk verði af réttindum sínum.
Bætur til þolenda afbrota
Við viljum að ríkið tryggi greiðslur bóta til þolenda ofbeldisglæpa óháð fjárhæð.
Lögskilnaður
Einstaklingur í hjónabandi eða skráðri sambúð á að hafa rétt á að fá lögskilnað/slíta samvistum án biðtíma eða samþykkis annars aðila eða stofnunar.
Bætum stjórnsýslu í forsjár- og umgengnismálum
Tryggjum réttindi barna og þolenda í fjölskyldu-, forsjár- og umgengnismálum. Tryggjum vernd barna samkvæmt ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að gæðaviðmið stjórnsýslu séu virt. Styttum málsmeðferðartíma með skýrari reglum, lögfestum hámark á málsmeðferðartíma forsjármála og auknum fjárveitingum til málaflokksins. Tökum brot gegn nálgunarbanni alvarlega og tryggjum vernd fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Gerum ráðstafanir til að tryggja að börn hvorki verði fyrir né séu vitni að ofbeldi á heimili.
Gjafsókn
Endurskoðum reglur um gjafsókn með það að markmiði að öll hafi aðgang að réttarkerfinu, óháð efnahagslegum aðstæðum.
Ráðgjafastofa almennings
Píratar vilja að komið verði á fót óhagnaðardrifinni sjálfstæðri stofnun sem hefði það hlutverk að leiðbeina fólki hvert það geti leitað til að leysa úr málefnum stórum og smáum. Til að mynda með því að leiðbeina um hvaða stofnun ætti að fjalla um tiltekið mál.
Úrbætur á fasteignamarkaði
Aukum valfrelsi fólks á fasteignamarkaði með því að tryggja frjálst val kaupenda á fasteignasala við gerð þjónustusamnings, þannig að fólk geti valið málsvara sinn í því sem eru stærstu viðskipti í lífi flestra einstaklinga og fjölskyldna. Skoðum fýsileika þess að skjóta minni ágreiningi í fasteignamálum til smákröfudómstóls til að forðast óhófleg útgjöld í deilumálum.
Meiðyrðamál
Skoðum möguleika á að stytta málsmeðferð meiðyrðamála og draga úr réttarfarslegum hindrunum fyrir þá sem eru sakaðir um meiðyrði. Stöndum vörð um tjáningarfrelsið þannig að fólk þurfi ekki að hræðast endurteknar málshöfðanir.
Stefan byggir á: Stefna um aukna möguleika fólks að leita réttar síns