Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Internet og netfrelsi

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Við Píratar viljum að aðgangur fólks að internetinu sé án hindrana, enda er netið ein af grunnstoðum samfélagsins. Tryggjum öllum á Íslandi alhliða, frjálst, opið og óskert internet á viðráðanlegu verði. Píratar vilja ná fram réttarúrbótum í netfrelsi almennings og standa vörð um réttarstöðu borgara, fjölmiðla, heimildamanna, uppljóstrara og upplýsingafrelsi á netinu.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Internetið meðal grunnvallarinnviða
  • Ljósleiðaravæðing
  • Netfrelsi og jafnræði í aðgengi
  • Aðgangur að upplýsingum
  • Réttindavernd á internetinu
  • Ísland verði framsækið stafrænt land

Internetið meðal grunninnviða

Við Píratar teljum internetið til grunnstoða þjóðarinnar. Tryggjum fólki aðgengi að stafrænum samskiptum óháð búsetu og metum internetið til jafns við aðrar samgöngur. Píratar skilja samfélagslegt mikilvægi þess að byggja upp stafrænar lausnir til framtíðar og við viljum auka aðgengi að atvinnu og þjónustu hvar sem hún er veitt. Með því eykst frelsi til að velja sér búsetu sem hentar, hvar sem er á landinu.

Ljósleiðaravæðing

Tryggjum háhraða ljósleiðara í allar byggðir og vinnum að því að auka aðgengi í dreifbýli á viðráðanlegu verði. Ljósleiðaravæðing er mikilvægt skref en í auknum mæli eru 5G og gervihnattatengingar að verða samkeppnishæfar við ljósleiðara og kunna að bjóða ódýrari kost í dreifbýli. Notum tæknina sem á best við á hverjum stað. Setjum eigendastefnu fyrir FarICE-sæstrenginn sem tryggir lág verð og aðkomu ríkisins í fjármögnun sé þess þörf.

Netfrelsi og jafnræði í aðgengi

Tryggjum jafnræði í aðgengi að internetinu fyrir alla samfélagshópa, óháð efnahag, þjóðfélagsstöðu, kyni- og kynhneigð og gerum öllum kleift að njóta ásættanlegs aðgengis, skilyrðislaust. Aðgengi að internetinu er víðtækt hugtak sem snýr ekki bara að tæknilegum atriðum heldur einnig félagslegum og efnahagslegum veruleika notenda. Tryggjum að öll hafi aðgengi að stafrænni þjónustu á vegum stjórnvalda, óháð bakgrunni og tækniþekkingu.

Aðgangur að upplýsingum

Við viljum standa vörð um upplýsingarétt almennings og tryggja aðgengi borgaranna að öllum þeim gögnum sem þeir eiga rétt á. Ísland á að halda áfram vinnu við að skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Notum internetið til að efla gagnsæi í störfum stjórnvalda með því að gera öll gögn þeirra opinber eftir fremsta megni á tölvutækan hátt í opnum gagnagáttum og á opnum gagnasniðum.

Réttindavernd á internetinu

Internetið skal vera eitt markaðssvæði og þurfum við að tryggja neytendavernd samkvæmt því. Við viljum að friðhelgi einkalífs sé virt og stuðla að virkri persónuvernd fyrir notendur á netinu. Komum í veg fyrir almenna vöktun einstaklinga og/eða hópa á netinu. Verndum friðhelgi einkalífs með því að afnema skyldu íslenskra fyrirtækja til að geyma gögn einstaklinga. Skyldum hið opinbera til að fara vel með gögn einstaklinga, sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar. Við styðjum skilyrðislausan rétt almennings til að vernda sín gögn og samskipti yfir netið, m.a. með dulkóðun.

Ísland verði framsækið stafrænt land

Ísland á að vera í fararbroddi þegar kemur að stafrænni löggjöf. Við viljum hvetja til stafrænna umbreytinga og tryggja að hið opinbera nýti frjálsan og opinn hugbúnað hvar sem því verður við komið, ekki síst í náms- og menntastofnunum. Námsgögn skulu ávallt vera aðgengileg þeim sem nota frjálsan og opinn hugbúnað. Þá viljum við tryggja öflugar fjarskiptaleiðir til og frá landinu og skilgreina fjarskiptanet sem innviði sem eiga að þjóna almannahagsmunum.

Stefnan byggir á: