Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Málefni innflytjenda

   5. ágúst 2021     3 mín lestur

Fjölmenning er fjársjóður. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina. Setja þarf nýjan tón í málefnum innflytjenda á Íslandi. Í stað hindrana, tortryggni og andúðar þarf nálgun sem byggir á mannúð, virðingu og einlægum vilja til að taka vel á móti fólki sem vill setjast hér að. Einföldum regluverkið og tryggjum fullnægjandi aðbúnað og umgjörð þegar umsóknarferli er í gangi og ekki síður eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt. Gagnkvæm menningarleg aðlögun er lykillinn að velgengni innflytjenda á Íslandi og farsælu fjölmenningarsamfélagi.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Útlendingastofnun verði lögð niður
  • Flóttafólk
  • Réttindi erlends verkafólks
  • Atvinnuleyfi fylgi veitingu dvalarleyfis
  • Menntun
  • Menningarleg aðlögun

Útlendingastofnun verði lögð niður

Píratar vilja leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og fela verkefni stofnunarinnar öðrum embættum, svo sem Þjóðskrá og sýslumönnum. Leggjum áherslu á hraðari, einfaldari og notendavænni meðhöndlun umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt.

Flóttafólk

Ísland verður að axla ríkari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta. Bæði þarf að taka á móti fleiri einstaklingum samhliða því sem móttökuferlið allt er bætt til muna. Beiting matskenndra ákvæða útlendingalaga þarf að taka mið af aukinni mannúð, skilningi og virðingu fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd. Umsóknir eiga almennt að vera teknar til efnismeðferðar. Brottvísanir til óöruggra ríkja innan Evrópu, þar með talið Grikklands og Ungverjalands, eru ólíðandi og þær ber að stöðva án tafar. Ákvörðun um frestun réttaráhrifa skal tekin af dómara en ekki kærunefnd útlendingamála. Í öllum tilvikum skal skilgreina málsmeðferðartíma frá upphafi umsóknar og fram að því að einstaklingur er fluttur úr landi. Brottvísanir þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, sérstaklega barna, eru ómannúðlegar og þeim skal hætt án tafar. Íslensk stjórnvöld verða að standa við skuldbindingar sínar á grundvelli Samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og tryggja að fórnarlömbum mansals verði veittur viðeigandi stuðningur og hjálp.

Réttindi erlends verkafólks

Fólk um allan heim er í auknum mæli á faraldsfæti og sú þróun mun halda áfram á næstu árum og áratugum. Fólk er orðið færanlegra og samfélagið þarf að vera tilbúið að takast á við þann nýja veruleika. Á Íslandi viðgangast víðtæk brot á erlendu launafólki, þrátt fyrir að lög og kjarasamningar tryggi réttindi óháð þjóðerni. Það birtist meðal annars í greiðslu rangra launa en einnig í leiguokri á óíbúðarhæfu húsnæði. Oft er um að ræða fólk í viðkvæmri stöðu sem hingað leitar í von um betra líf, þekkir lítt til réttinda sinna og hefur ekki sterkt bakland. Eflum fræðslu fyrir þennan hóp og aðgang að upplýsingum á móðurmáli og styrkjum heimildir eftirlitsaðila, þ.m.t. stéttarfélaga til öflunar gagna. Skýrum og bætum heimildir til beitingu viðurlaga gagnvart brotlegum atvinnurekendum og setjum í lög viðurlög eins og févíti þegar uppvíst verður um brot. Útvíkkum þarf skilgreininguna á vinnumansali þannig að hún nái utan um öll tilvik þess og gerum betur til að tryggja öruggt húsnæði fyrir erlent verkafólk.

Atvinnuleyfi fylgi veitingu dvalarleyfis

Öllum tegundum dvalarleyfa á almennt fylgja atvinnuleyfi. Þannig getum við ýtt undir sjálfsbjargarviðleitni þeirra sem hér setjast að í stað þess að festa fólk í viðjum opinberrar aðstoðar.

Menntun

Við viljum að einstaklingar með erlendan bakgrunn hafi aðgang að fjölbreyttum menntaúrræðum sem henta þeirra þörfum. Nám í íslensku ætti að vera aðgengilegt öllum, án tillits til aldurs, uppruna, eða fjárhagslegrar stöðu. Slíkt nám ætti að vera í boði á öllum færnistigum og ætti að búa nemandann undir líf í íslensku samfélagi. Eflum íslenskukennslu á leikskólastigi og bjóðum börnum á öllum skólastigum sem ekki hafa öðlast færni í íslensku einstaklingsmiðaða kennslu án almennrar aðgreiningar frá öðrum nemendum. Hlúum að móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna og gerum mat á námi erlendis frá aðgengilegra fyrir öll.

Menningarleg aðlögun

Við viljum hjálpa útlendingum betur að aðlagast íslenskri menningu og gefa þeim tækifæri til að verða hluti af íslensku samfélagi. Eflum fjölmenningarsetur og tökum vel á móti innflytjendum með fjölbreyttan bakgrunn hvaðanæva að úr heiminum. Grípum til aðgerða gegn fordómum og útlendingahatri og byggjum upp samfélag sem byggir á samkennd og samhug, með sérstöku samfélagsátaki.

Stefnan byggir á: Fjölmenningarstefna