Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Málefni eldra fólks

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Eldra fólk hefur búið við ósanngjarnt lífeyriskerfi og ófullnægjandi þjónustu allt of lengi. Við viljum koma fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk, það fái að ráða sínu eigin lífi en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Við viljum tryggja framfærslu þeirra sem eru komin á efri ár, viðunandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu og öryggi í húsnæðismálum. Meginstef Pírata í málefnum eldra fólks eru velsæld, öryggi, samráð og virðing.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Ellilífeyrir fylgi launaþróun
  • Valfrjáls frestun töku ellilífeyris
  • Lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri
  • Efling þjónustu í nærsamfélaginu
  • Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
  • Fjölbreytt úrræði og samráð við eldra fólk

Ellilífeyrir fylgi launaþróun

Útrýmum fátækt eldra fólks sem reiðir sig einvörðungu á lögbundinn ellilífeyri. Það er einungis tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun, þó þannig að breytingar á ellilífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Lífeyrir á að duga fyrir framfærslu allra sem hann þiggja. Fáum óháða sérfræðinga til að reikna út kjaragliðnun ellilífeyris undanfarinna ára og vinnum hana upp með reglubundnum hækkunum á kjörtímabilinu.

Sveigjanleiki við töku ellilífeyris

Við viljum standa vörð um rétt eldra fólks til að hætta að vinna við 67 ára aldur en á sama tíma tryggja valfrelsi til að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. Starfslok eiga að vera á forsendum fólks og færni, ekki aldurs.

Lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri

Við viljum lögfesta lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins, hækka frítekjumark ellilífeyris í lágmarksframfærslu og afnema skerðingar. Brýnast er að afnema skerðingar vegna atvinnutekna.

Efling þjónustu í nærsamfélaginu

Tryggjum húsnæði og þjónustu við hæfi í heimahéraði, komum í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur. Við viljum efla heimaþjónustu til að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili kjósi það svo. Jafnframt þarf að byggja upp fjölbreytt húsnæði þannig að eldra fólk geti valið sér búsetu eftir persónuleika og áhuga, hvort sem það vill búa nálægt iðandi mannlífi eða í rólegri sveitasælu.

Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis

Við tökum undir ályktun Landsambands eldri borgara um að víða vanti millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga. Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.

Fjölbreytt úrræði og samráð við eldra fólk

Skipuleggjum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, félagslegan stuðning, aðgerðir til að draga úr einangrun og auka virkni, fjölbreytt félagsstarf þvert á kynslóðir og stuðning til sjálfshjálpar. Allt verði þetta gert í samráði og samstarfi við eldra fólk, enda er aðkoma fólks að eigin málefnum lýðræðisleg, valdeflandi og í anda Pírata. Þannig tryggjum við einnig að fjármunir í málaflokknum nýtist sem best, eldra fólki öllu til hagsbóta.

Stefnan byggir á: Stefna um málefni eldra fólks