Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Ungt fólk og framtíðin

   5. ágúst 2021     3 mín lestur

Við Píratar ætlum að leggja meiri áherslu á málefni ungs fólks. Við viljum efla lýðræðisvitund ungs fólks og virða rétt barna og ungmenna til að koma að ákvörðunum um eigin hagsmuni og kynslóða framtíðarinnar. Bætum kjör yngra fólks sem hefur setið eftir á undanförnum áratugum.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Lækkum kosningaaldur
  • Hlustum á og valdeflum yngri kynslóðir
  • Bregðumst við ákalli um samfélagslegar umbætur
  • Bætt kjör fyrir yngra fólk
  • Barnasáttmálinn verði virtur
  • Persónuafsláttur
  • Tækifæri fyrir ungt fólk um allt land
  • Spornum við atvinnuleysi ungs fólks
  • Geðheilbrigði ungs fólks
  • Viðráðanlegt húsnæði
  • Ungir foreldrar

Lækkum kosningaaldur

Við viljum lækka kosningaaldur og færa öllum þeim sem verða 16 ára á árinu kosningarétt í öllum kosningum. Ef fólk borgar skatta á það að geta sagt skoðun sína á því hvernig þeim er varið. Samhliða því þarf að efla menntakerfið, t.d. veita kennslu um lýðræði og kosningar.

Hlustum á og valdeflum yngri kynslóðir

Setjum á fót virkan samráðsvettvang fyrir ungmennaráð þar sem ungu fólki gefst færi á að nýta skýrar boðleiðir til að koma skoðunum sínum á framfæri við valdhafa. Höldum fleiri þingfundi ungmenna, þar sem ráðamenn þjóðarinnar fara í hlutverk áheyrenda og tryggjum að eftir þá taki við ferli sem vinni úr niðurstöðum fundanna. Samráð og samtal verður líka að leiða til alvöru viðbragða frá valdhöfum og stjórnvöld skulda reikningsskil á því hvernig þau vinna úr hugmyndum samráðsins.

Bregðumst við ákalli um samfélagslegar umbætur

Á undanförnum árum hefur ungt fólk sýnt fádæma frumkvæði með mikilli þátttöku í samfélagsumræðunni, sem endurspeglast m.a. í loftslagsverkföllum, baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá, kröfum um umbætur í menntakerfinu og framfærslu á meðan námi stendur. Við eigum að taka kröfur þeirra alvarlega og fagna frumkvæðinu með samstarfi og aðgerðum.

Bætt kjör fyrir yngra fólk

Hærri útgreiðanlegur persónuafsláttur, námsstyrkir og aukin áhersla á nýsköpun gagnast yngra fólki sérstaklega vel. Það þýðir lægri skuldir að loknu námi og fleiri tækifæri í kjölfarið. Við viljum að ungt fólk geti tekið fyrstu skrefin án skuldbindinga. \

Barnasáttmálinn verði virtur

Höfum barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu starfi sem varðar börn. Rétt væri að grunnskólar innleiði barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna í starfi sínu.

Persónuafsláttur

Við viljum greiða út persónuafsláttinn til þeirra sem nýta hann ekki. Þannig bætum við kjör ungs fólks og þeirra sem minnstar tekjur hafa.

Tækifæri fyrir ungt fólk um allt land

Við þekkjum mikilvægi þess að ungt fólk alls staðar á landinu búi við tækifæri. Við viljum vinna að því að auka aðgengi að menntun í nærsamfélaginu og leggja áherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land.

Spornum við atvinnuleysi ungs fólks

Sköpum fleiri og fjölbreyttari tækifæri á vinnumarkaði fyrir ungt fólk; jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og við frumkvöðlastarf. Tryggjum nemendum jafnframt atvinnuleysisbætur þegar framboð á sumarvinnu fyrir námsfólk algjörlega þrýtur. Stúdentar greiða í atvinnuleysistryggingasjóð og því eðlilegt að þeir geti sótt í hann þegar á reynir. Enginn á að missa réttindi við það eitt að mennta sig.

Geðheilbrigði ungs fólks

Kannanir sýna að geðheilsu ungs fólks hefur hrakað á undanförnum árum. Við því þarf að bregðast strax, enda mun sinnuleysi kosta okkur meira til framtíðar. Fræðsla um líðan og umræða um geðheilbrigði þarf að eiga sér stað strax á fyrstu stigum skólakerfisins, auk þess sem sálfræðingar eiga að vera til taks í framhalds- og háskólum landsins.

Viðráðanlegt húsnæði

Húsnæðiskostnaður er ein stærsta hindrunin í vegi þeirra sem vilja koma undir sig fótunum. Skilvirk leið til þess að bæta úr því er að auka framboð af íbúðum fyrir ungt fólk, jafnt námsfólk sem og önnur. Það má t.d. gera í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Félagsstofnun stúdenta og Bjarg.

Ungir foreldrar

Það getur verið stórt og krefjandi skref að verða ungt foreldri. Aukin útgjöld og aukið álag koma sérstaklega niður á ungum foreldrum, sem að jafnaði eru tekjulítil og í óðaönn að leggja grunn að framtíð sinni. Raunverulegt fæðingarorlof fyrir námsfjölskyldur, hærri fæðingarstyrkir, hærri barnabætur og sveigjanlegra fæðingarorlofskerfi eru meðal þess sem þarf að ráðast í, til að létta ungum foreldrum uppeldið.

Stefnan byggir á:

  • Ungt fólk og framtíðin
  • Persónuafsláttur
  • Kosningaaldur