Kosningastefna Pírata 2021 - Nýja stjórnarskráin
Við viljum að Alþingi innleiði nýja stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili, líkt og þjóðin kvað á um þann 20. október 2012. Alþingi á að virða vilja þjóðarinnar og efna loforðið frá lýðveldisstofnun um að íslenska þjóðin fái nýja stjórnarskrá. Píratar munu einungis taka þátt í myndun ríkisstjórnar sem skuldbindur sig til þess að kjósa um nýju stjórnarskrána á næsta kjörtímabili.
Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is
Nánar
- Klárum stjórnarskrána á kjörtímabilinu
- Ríkt almenningssamráð og vönduð vinnubrögð
Klárum stjórnarskrána á kjörtímabilinu
Við viljum að Alþingi samþykki nýju stjórnarskrána á kjörtímabilinu og efni til þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar á henni í kjölfarið, samhliða þarnæstu alþingiskosningum. Tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar til grundvallar allri þessari vinnu, sem og sú vinna sem lögð hefur verið í þær tillögur síðan og birtist m.a. í þeim frumvörpum sem þingmenn Pírata hafa lagt fram á Alþingi undanfarin ár. Sú nýja stjórnarskrá hefur hlotið stuðning þjóðarinnar, var skrifuð á mannamáli af fjölbreyttum hópi fólks í lýðræðislegu og gagnsæju ferli. Nýja stjórnarskráin tekur af ríkjandi vafa um valdmörk og ábyrgð valdhafa, festir nútímaleg mannréttindi í sessi, tryggir náttúruauðlindir í þjóðareign og eflir lýðræði, náttúruvernd og gagnsæja stjórnsýslu án þess að kollvarpa stjórnskipan landsins.
Ríkt almenningssamráð og vönduð vinnubrögð
Öll umræða um möguleg frávik frá tillögum stjórnlagaráðs skal fara fram í víðtæku og opnu samráði við almenning og eftir atvikum í samráði við fyrrum fulltrúa í stjórnlagaráði. Tillögur stjórnlagaráðs eiga að vera útgangspunkturinn og breytingar eiga að ná markmiðum eða anda þeirra. Alþingi ætti að taka nýju stjórnarskrána og einstök ákvæði hennar til umræðu á hverju þingi næsta kjörtímabils, til að varpa ljósi á einstök efnisleg ágreiningsatriði og veita öllum á þingi svigrúm til að tjá skoðanir sínar á málinu.
Stefnan byggir á: Stefna um útfærslu á samþykkt nýrrar stjórnarskrár