Efnisyfirlit

Breytingar eru eðlilegar

   27. júlí 2021     2 mín lestur

Athygli vakti þegar Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala, sagði að stjórnvöld hefðu brugðist þjóðinni tvívegis. Nú einu og hálfu ári eftir að faraldurinn skall á þurfi ekki nema þrjár innlagnir til þess að setja Landspítalann á hættustig.

Í viðtali við Kjarnann segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að hann hefði viljað sjá betri stjórn á landamærunum en að það „hafi ekki verið hægt“.

Landspítalinn er á hættustigi og sóttvarnalæknir segir að ekki hafi verið hægt að hafa betri stjórn á landamærunum. Við hljótum að þurfa að spyrja „af hverju?“ Af hverju er Landspítalinn á hættustigi? Af hverju var ekki hægt að hafa betri stjórn á landamærunum? Eina svarið við þessum spurningum er „ríkisstjórnin“. Mánuðum saman hefur ríkisstjórninni mistekist að bregðast við álaginu á spítalann og nú er efnahagslega áætlun ríkisstjórnarinnar að mistakast líka. Veðmálið um að ferðaþjónustan sé lausnin er að kosta okkur enn eina bylgjuna.

Ein fyrstu viðbrögð stjórnvalda þegar faraldurinn skall á í fyrra var að setja þrjá milljarða í markaðsátak fyrir ferðaþjónustuna og opna svo landamærin fyrir ferðamönnum. Í framhaldinu komu önnur og þriðja bylgja faraldursins.

Allan faraldurinn hefur þetta verið eina markmið ríkisstjórnarinnar, að verja ferðaþjónustuna þannig að hún taki aftur við fyrra hlutverki í íslensku efnahagslífi eftir faraldurinn. Ekkert plan B. Þannig hefur allt þetta kjörtímabil verið, breið pólitísk stjórn um óbreytt ástand í stað þess að leysa þau samfélagslegu vandamál sem blasa við okkur öllum.

Enn skortur á húsnæði. Enn mannekla í heilbrigðiskerfinu. Enn engar breytingar í sjávarútvegi. Gömul stjórnarskrá. Gamlir flokkar en samt engar lausnir fyrir gamla fólkið okkar.

Stefna Pírata hefur verið skýr frá upphafi faraldurs. Takmarkanir á landamærunum eru besta leiðin til að tryggja hag, heilsu og frelsi almennings í heimsfaraldri. Í atvinnumálum höfum við alltaf lagt áherslu á nýsköpun til þess að taka við atvinnuleysinu, það býr til tækifæri til framtíðar og gefur okkur möguleika á að vaxa úr faraldrinum.

Síðastliðnir 16 mánuðir voru fullkomið tækifæri til að renna fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Tækifæri til að hjálpa fólki að gera hugmyndir sínar að veruleika, í stað þess að takmarka veruleikann við hugmyndir ríkisstjórnarinnar.

Þurfum við að þola annað kjörtímabil af gömlu geðþóttastjórnmálunum? Þar sem öll eggin eru sett í sömu gömlu körfuna hjá sömu gömlu sérhagsmununum? Fram undan eru átök við fleiri stór úrlausnarefni, eins og loftslagsvá og sjálfvirknivæðingu, og miðað við þröngsýni stjórnvalda í faraldrinum er ljóst að framtíðin getur aldrei orðið á þeirra forsendum. Breytingar eru nauðsynlegar.