Efnisyfirlit

Dýrari spítali

   16. júlí 2021     2 mín lestur

Í vikunni birtist frétt um 16 milljarða viðbótarkostnað vegna nýja landspítalans (NLSH). Þar er vitnað í framkvæmdastjóra NLSH sem segir að skýringin sé aukið umfangs verkefnisins. Stærsta byggingin, meðferðarkjarninn, hafi verið stækkaður um þriðjung. Það er mjög undarleg útskýring þar sem byggingarleyfi, sem var gefið út árið 2018, byggir á kostnaðaráætlun sem var gerð fyrir stærri gerðina af meðferðarkjarna árið 2017. Fjármálaráðuneytið segir hins vegar að kostnaður hafi aukist, meðal annars vegna stækkunar húsbygginga.

Framkvæmdir vegna nýja landspítalans ná alveg aftur til ársins 2010, en þá hófst undirbúningur við byggingu sjúkrahótels sem nú er nýlokið. Það verkefni tafðist og fór 8,3% fram úr kostnaðaráætlun samkvæmt svari ráðuneytisins. Bygging meðferðarkjarna hefur einnig tafist og skýringarnar á því eru misvísandi. Annars vegar er sagt að fjárheimildir hafi færst á milli ára vegna tafa og hins vegar er sagt að verkefnið hafi tafist vegna flutnings fjárheimilda á milli ára. Fólk er því ekki sammála um hænuna og eggið - en þegar talað var við fólk sem sér um framkvæmdir þá sagði það að auðveldlega hefði mátt halda áfram framkvæmdum. Tafirnar voru sem sagt heimasmíðaðar hjá þeim sem héldu á peningaveskinu, þau vildu einfaldlega ekki borga af því að efnahagurinn var á einhverri niðurleið. Þetta var fyrir heimsfaraldurinn, til þess að hafa það á hreinu.

Ég hef áhuga á þessu máli af nokkrum ástæðum. Til að byrja með af því að ég er í fjárlaganefnd Alþingis og þegar það þarf allt í einu að fara að borga 16 milljarða aukalega án þess að það sé útskýrt af hverju, þá verð ég frekar pirraður - faglega séð. Mér finnst einnig mjög áhugavert að eftir að staðsetning er valin fyrir NLSH þá er spítalinn stækkaður um þriðjung. Ég veit ekki hvort fólk hefur tekið eftir því en það er ekki endalaust pláss á þessum byggingarreit og þess vegna velti ég því fyrir mér að ef stærð spítalans hefði legið fyrir frá upphafi, hvort önnur staðsetning með meira pláss hefði verði valin. Ef fagleg greining hefði sagt að það þyrfti að stækka spítalann um 50% en ekki 33%, hefði þá verið pláss?

Helsta ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á þessu máli er auðvitað að ég vil fá nýjan og góðan spítala. Kostnaðurinn við að byggja spítalann er í rauninni mjög lítill í samanburði við rekstur þeirrar þjónustu sem þar fer fram og ég vil að það sé hægt að veita þá þjónustu á eins hagkvæman og faglegan hátt og mögulegt er. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að fá þessar útskýringar á auknum kostnaði; stærri byggingar, breytt umfang, breytt form. Ef þessi orð lýsa grundvallarbreytingum á stuttum tíma, hvaða breytingar verða þá nauðsynlegar á næstu árum?