Efnisyfirlit

Síðasti dansinn?

   8. júlí 2021     1 mín lestur

Sögurnar um dans forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru sögur sem má ekki segja. Þær eru mjög vandræðalegar og það væri óviðeigandi að vísa í þær sem táknmynd fyrir núverandi stjórnarsamstarf. Það kom því mörgum á óvart þegar vinstri og hægri gengu saman út á dansgólfið í upphafi þessa kjörtímabils undir rólegri framsóknartónlist. Á meðan dansfélagarnir keppast við að mæra hvorn annan klóra allir aðrir sér í hausnum yfir þessum undarlega dansi. Það er djævað yfir heilbrigðiskerfið, lindyhoppað yfir Landsrétt, valsað yfir sjávarauðlindina, steppað yfir stjórnarskránna og svo slammað yfir hálendið svo fátt eitt sé nefnt.

Síðastliðinn þriðjudagur, þegar haldinn var auka þingfundur, var líklega síðasti danstíminn á þessu kjörtímabili. Þar mæltum við Píratar fyrir breytingu við þingfrestun forsætisráðherra. Þar lögðum við til að þingið byði þjóðinni í dans um stjórnarskrána. Dansinn sem þjóðin bað um í atkvæðagreiðslu árið 2012, fyrir níu árum síðan, og hefur ekki enn fengið. Þar gafst þingmönnum tækifæri á að greiða atkvæði um auka þingfundi í ágúst til þess að bæta að minnsta kosti við breytingarákvæði í stjórnarskrána sem krefst ekki alþingiskosninga.

Atkvæðagreiðslan var áhugaverð, en tilöguna studdu þeir flokkar sem lögðu hana fram ásamt Pírötum; Samfylkingin og Flokkur fólksins. Nei sögðu Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Vinstri græn og Framsókn. Viðreisn sat hjá með orðum formannsins: „Ég get ekki tekið undir að það eigi að innleiða hina svokölluðu nýju stjórnarskrá.“

Vandinn sem við glímum við í dag, þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum, er að þegar Alþingi samþykkir slíkar breytingar þá þarf að rjúfa þing og boða til almennra kosninga. Í þeim kosningum er ekki kosið um stjórnarskrárbreytingarnar sjálfar heldur er bara gert ráð fyrir hefðbundnum þingkosningum þar sem fólk kýs flokka eins og venjulega. Þessu viljum við breyta, þannig að fólk geti sagt álit sitt á þeim stjórnarskrárbreytingum beint - án þess að þurfa að kjósa stjórnmálaflokka á sama tíma. Það er jú þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Ef stjórnarskráin væri tónlist, þá er þjóðin tónskáld og þingið dansar eftir því hvort þjóðin spilar rokk, diskó eða polka.

Nýja stjórnarskráin inniheldur margar betrumbætur fyrir lýðræðið. Málskotsrétt fyrir þjóðina, frumkvæðisrétt, upplýsingarétt, frelsi fjölmiðla, auðlindaákvæði, jafnt vægi atkvæða og margt fleira. Nauðsynlegar uppfærslur fyrir nútíma samfélag. En þær verða að bíða á meðan forsætisráðherra og fjármálaráðherra klára dansinn sinn í friði. Ekkert þing og enginn stjórnarskrárstubbur síðustu fjóru mánuðina fyrir kosningar til þess að trufla ekki síðasta vangadansinn.