Efnisyfirlit

Ráðleggingar OECD í efnahagsmálum

   8. júlí 2021     5 mín lestur

Það er áhugavert að skoða ráðleggingar OECD þar sem þaðan kemur ákveðið sjónarhorn sem er með stærra samhengi en oft er fjallað um hérna heima. Nokkurs konar “glöggt er gests augað”. En á sama tíma og það er mjög heilbrigt að fá slíkt sjónarhorn þá eru lausnirnar sem lagðar eru fram ekkert endilega þær bestu - þar sem um er að ræða stærra samhengi einmitt. Skýrsla OECD mælir með eftirfarandi kerfisbreytingum og fjallar um umbætur á árunum 2019 - 2020:

2021 Structural Reform Priorities

 • Education and skills: Foster strong and relevant skills
 • Environmental policy: Move towards a low-carbon economy
 • Agriculture: Reduce agricultural support
 • Competition and regulation: Remove barriers to domestic and foreign entry
 • Tax system: Lower the marginal tax wedge

Menntamál

 • Sagt er að síðan 2019 sé búið að innleiða færnimat fyrir kennara til þess að styðja við starfsþróun.

Einhver sem er betur inni í þeirri framkvæmd getur kannski frætt okkur um hvernig það hefur gengið.

Það sem lagt er til að gera er að

 • bæta gæði kennslu í grunnskóla með því að leggja meiri áherslu á símenntun.
 • Ná meiri samlegðaráhrifum milli bók- og verknáms og
 • tengja fjármögnun háskóla við gengi nemenda á vinnumarkaði.

Ég átta mig ekki á síðasta punktinum og hann gengur líklega ansi nærri akademísku frelsi. Hitt er hins vegar alveg rétt að það vantar upp á betri samlegðaráhrif grunnrannsókna og hagnýtingar. Hvort tveggja þarf að vera til staðar en þetta er að miklu leyti í einhverjum hrærigraut hér á landi. Það er þó búið að betrumbæta það aðeins með lagasetningu um aðgengi að háskólum eftir 3. hæfnisstig. Hvort það virkar í reynd á enn eftir að koma í ljós hins vegar.

Umhverfismál

Þetta er nýtt áhersluatriði og ekki er lagt mat á fyrri umbætur en áskoranirnar eru:

 • Auka kolefnisgjaldið og bæta við sköttum á aðrar gróðurhúsalofttegundir. Deila skal þeim tekjum á viðkvæma (vulnerable) hópa samfélagsins og (viðkvæm) fyrirtæki.
 • Fjárfesta í lágkolefnis samgöngum og skipaflota ásamt kolefnisföngun í iðnaði. Það gráta margir kolefnisgjaldið, þó það sé í rauninni mjög lágt. Það er einstaklega lélegur pólitískur blekkingarleikur að mínu mati því þetta er mjög heilbrigt gjald á margan hátt. Aðallega vegna þess að þetta er gjald sem hverfur fyrir almenna borgara tiltölulega fljótlega. Þetta verða aðallega gjöld á iðnað - vegna mengunar. Þetta hvetur til úreldingar og nýsköpunar á sjálfbærri tækni.

Landbúnaður

 • Ríkisstjórnin minnkaði niðurgreiðslur til landbúnaðarins lítillega árið 2019.

Markmiðin hér eru:

 • Halda áfram að minnka niðurgreiðslur til landbúnaðarframleiðslu og tengja þær við sjálfbæra landnotkun og framleiðslu umhverfisvænna vara.

Ég er dálítið sammála þessu, en ég held að þetta þýði samt að á næstunni þýði þetta samt hærri heildarútgjöld til landbúnaðarmála. Aðallega vegna nýsköpunarstyrkja á einu formi eða öðru. Minni áhersla á að landbúnaðurinn eigi að framleiða bara það sem er greitt fyrir samkvæmt búvörusamningum og meiri áhersla á sjálfstæði bænda í vöruþróun. Það þýðir, tæknilega, að niðurgreiðslur minnka en á sama tíma þýðir það ekki að fjárheimildir minnki - sérstaklega ekki á næstu árum því það er gríðarleg þróun í matvælaframleiðslu sem þarf að fjárfesta í til þess að við lendum ekki eftir á.

Samkeppni

Nýtt áhersluatriði, ekki fjallað um umbætur fyrri ára.

Ný markmið:

 • Minnka reglugerðabyrði. Sérstaklega í þjónustugeiranum og samgöngu- og samskiptamálum.
 • Minnka takmarkanir á erlendri fjárfestingu
 • Minnka stjórnsýslubyrði nýsköpunar

Þetta er tónlist í mínum eyrum, nema kannski “minnka takmarkanir á erlendri fjárfestingu”. Ástæðan fyrir því er að ég sé bara fyrir mér fjárfestingarleið seðlabankans eða eitthvað slíkt sem má alls ekki skoða ofan í kjölinn. Það er tilefni til þess að stíga varlega þar til jarðar því við vitum alveg af því að það eru ekkert endilega bara erlendir fjárfestar sem eru að koma hingað heldur Íslendingar með fé erlendis frá í gegnum skúffufyrirtæki og svoleiðis. Panamaskjölin eiga enn við hérna. Hér þarf sérstaklega að passa upp á gagnsæi og ábyrgð - enginn betri í því en Píratar auðvitað 🙂

Skattkerfið

 • Ríkisstjórnin minnkaði tekjuskatt fyrir lágtekjufólk árið 2020.

Og minnkaði persónuafsláttinn. Hægt er að skoða áhrifin hérna. Lágmarkslaun Eflingar 2019 voru 317 þúsund. Reiknivélin sýnir að skattbyrði lágmarkslauna lækkaði um 0,9%, eða um 2.800 krónur. Meðaltekjur 2019 voru 573 þúsund kr og var skattalækkunin þar 0,6% eða tæplega 3.000 krónur á mánuði. Miðgildi launa var 665 þúsund sem þýddi 0,4% skattalækkun eða 2.743 kr. á mánuði. Skattalækkunin hætti svo að hafa áhrif fyrir laun yfir 1 milljón og 20 þúsund krónum á mánuði en sá sem var með 975 þúsund í laun á mánuði fékk 2.000 kr. skattalækkun. Heilum 800 krónum minni skattalækkun en sá sem var á lágmarkslaunum.

Niðurstaðan úr þessu er að já, það er rétt að tekjuskattur var lækkaður fyrir lágtekjufólk en hann var líka lækkaður fyrir fólk með allt að milljón á mánuði. Hlutfallslega lækkunin var vissulega minni en peningarnir í veskið voru nokkurn vegin nákvæmlega þeir sömu. 800 krónum meiri skattalækkun fyrir fólk á lágmarkslaunum og fólk með milljón á mánuði - munurinn náði ekki tilboði af miðstæð á pizzu á mánuði.

Stærra skref var svo tekið 2021 og er munurinn þá orðinn aðeins meiri miðað við lægstu tekjur og milljón á mánuði. Þá er tekjuskattslækkunin orðin 8.700 kr á mánuði fyrir lægstu tekjur en rétt um helmingurinn af því fyrir milljón á mánuði. Þar munar einu sparitilboði A af pizzu á mánuði.

Í heildina á litið þá er hér verið að lækka skatta á alla sem eru með milljón eða minna í tekjur á mánuði. Hlutfallsleg skattbyrði hækkar ekkert yfir þeim tekjum miðað við reiknivélina. Til viðbótar við þetta var svo hækkað frítekjumark einstaklinga vegna fjármagnstekna úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund krónur. Eina fólkið sem þetta hefur áhrif á er fólk í 10. tekjutíund. Eins og sést á tekjusagan.is þá er fólk í 9. tekjutíund með 74 þúsund í fjármagnstekjur en í 10. tekjutíund eru þær komnar upp í 547 þúsund krónur. Þarna er semsagt verið að gefa 10% ríkustu einstaklingum þjóðarinnar 22% af 150 þúsund krónur á ári sem eru tæplega 3 þúsund krónur á mánuði.

Þannig að já, það var verið að lækka skatta á lágtekjufólk. Skattar á það fólk sem er með mestu tekjurnar voru hins vegar lækkaðir meira.

En aftur að markmiðum OECD fyrir komandi ár:

 • Endurhanna örorkukerfið í átt að virkni
 • Barnabætur fyrir börn óháð tekjum foreldra eða lækka skerðingar verulega.
 • Stytta atvinnuleysisrétt og auka vinnutímann sem þarf til þess að ná réttindum.

Það þarf í alvörunni að gera betur í bæði örorku- og atvinnuleysismálum og aðstæður fólks eru ekki það einfaldar að það sé hægt að stilla örorkumálum upp fyrir virkni eða stytta bara atvinnuleysisréttinn. Ef það á að vera “eitt kerfi sem passar fyrir alla”, eins og tilhneygingin hefur verið þá þýðir það grunnframfærslukerfi. Ekki skerðingar- og bótakerfi eins og er í gangi núna þar sem fólk festist í fátæktargildru.


Já, það er svo sannarlega áhugavert að fara yfir þessar ráðleggingar OECD og miðað við til dæmis yfirferð þeirra um skattkerfið þá er þar með ekki öll sagan sögð.