Efnisyfirlit

Gamlir ósiðir sem við verðum að hafna

   29. júní 2021     2 mín lestur

“Jón var að stríða mér!”, segir Gunna. “Gunna tók af mér bílinn!”, segir Jón. Við könnumst flest við að krakkar á ákveðnum aldri klagi allt á milli himins og jarðar og ég þori að veðja að viðbrögð mjög margra séu að segja “ekki vera klöguskjóða”.

“Klöguskjóða” er uppnefni sem heyrist oft bergmála á leikvellinum, og skildi engan undra þegar viðbrögð fullorðinna eru að segja krökkum að klaga ekki. Lærdómurinn sem börn draga af því er að það sé vont að klaga. Merking orðsins er neikvæð á þann hátt.

Vandinn er að stundum er gott að klaga. Stundum þarf að klaga því hegðunin eða brotið er það slæmt að það þarf að kvarta undan því. Svo slæmt að það þarf að bregðast við því. Oftast er hins vegar engin þörf á því að bregðast við á neinn sérstakan hátt - nema með fræðslu. Þegar börn eru að klaga eru þau nefnilega að læra hvað er rétt og hvað er rangt. Hvað er ósanngjarnt og hvað er sanngjarnt. Þegar við höfnum beiðni þeirra um hjálp þá erum við einnig að kenna þeim hvers konar hegðun er ásættanleg og ekki. Þegar við segjum “ekki klaga”, þá erum við að hafna þeim skilningi sem barnið hefur á réttlæti og sanngirni.

“Hann er bara skotinn í þér!”. Hver kannast ekki við þessa setningu í samhengi þess að strákur er að stríða stelpu? Hvað þýðir þetta eiginlega? Þetta er bókstaflega kennsla í því hvernig strákur á að láta í ljós hrifningu sína á einhverjum og á sama tíma hvernig stelpur eiga að skilja hvað það þýðir þegar strákur er að stríða þeim. Meiri stríðni, meiri hrifning.

Hvaða afleiðingar hefur það þegar allir halda að stríðni jafngildi hrifningu? #metoo ætti að vera augljóst dæmi um hvaða afleiðingar svona viðhorf hafa. Ýkt dæmi, vissulega, en augljóst dæmi samt.

Klöguskjóður og stríðnispúkar eru ekki rót alls ills en viðbrögðin sem við notum til þess að sleppa við að glíma við vandann eru stór hluti þeirrar gerendameðvirkni sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Það má ekki tala um rökstuddan grun eða birta hljóðupptökur af opinberum persónum. Svo mega lögreglumenn ekki spjalla sín á milli á “óviðeigandi” hátt, sérstaklega ekki ef það var verið að klaga frá því sem yfirvaldið var að gera.

Þessi gamli vani er lúmskur og hefur því víðtæk áhrif. Það er tiltölulega óljóst hvaða afleiðingar það hefur að segja þessi einföldu orð “ekki klaga” og “hann er bara skotinn í þér”, við grípum bara í þessi orð af gömlum vana án þess að átta okkur á mögulegum afleiðingum.

Gerendameðvirkni og stríðni eru flókin fyrirbæri. Það er ekki til nein töfralausn við þeim en ég tel að þessi gamli vani hafi víðtækari áhrif en við gerum okkur grein fyrir og við þurfum að gera betur. Stríðni er ekki merki um hrifningu og barn sem klagar er að læra á sanngirni og réttlæti.