Efnisyfirlit

Að loknum þinglokum

   19. júní 2021     2 mín lestur

Ég veit, það nennir enginn langlokum um þingið eftir hin venjulega vesen og sýndarmennsku sem viðgengst alla jafna í þinglokum. Formúlan er kunnugleg: Málþóf hjá stjórnarandstöðu af því að stjórnarflokkarnir vilja ekki semja og/eða öfugt, stjórnin vill ekki semja út af fáránlegum kröfum stjórnarandstöðunnar. Sem betur fer er þetta bara 2700 tákna grein, í mesta lagi hálf langloka.

Það er ástæða fyrir því að þingið starfar eins og það gerir. Slæm ástæða. Ef fólki tekst ekki að ná sínu fram með rökum þá beitir það ofbeldi. Hér er alls ekki átt við líkamlegt ofbeldi, en það hefur alveg jaðrað við það. Ég hef séð fólk öskra á hvort annað, skella hurðum, beita hótunum og þess háttar. Hér er átt við stofnanalegt ofbeldi.

Á þessu kjörtímabili hef ég starfað í nokkrum nefndum. Munurinn á starfinu í þeim nefndum er gríðarlega mikill, efnislega og formlega, og ræðst það aðallega af því hvernig fundum er stýrt og hverjir eru nefndarmenn. Ég heyri svipaða sögu úr öðrum nefndum, það skiptir máli hver stýrir fundum og hverjir nefndarmenn eru. Það skiptir máli hvernig starfið fer fram og hvaða árangri við náum saman. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart auðvitað. Rétt fólk á réttum stað skilar réttum árangri.

Það skiptir því miklu máli að gott fólk veljist til starfa á þingi, fólk sem velur ekki að beita ofbeldi til þess að ná árangri. Vandinn er að menningin á Alþingi ýtir undir þessar aðferðir. Leikurinn er settur upp þannig að ofbeldisaðferðir verða sjálfkrafa fyrir valinu og það þarf að hafa fyrir því að ná árangri á annan hátt. Þetta eru vinnubrögð sem mér sýnist flestir flokkar vera búnir að sætta sig við. Þau kunna á þetta vinnulag og finnst þægilegt að falla bara í sama far og venjulega. Þar er vandinn, í hefðum gömlu flokkanna sem eru með Stokkhólmsheilkenni gangvart gömlu skotgrafarpólitíkinni.

Allir þingmenn í öllum flokkum telja sig vera að gera sitt besta. Hvað fólk gerir til þess að ná sem bestum árangri er auðvitað mismunandi. Alveg eins og það er mismunandi milli þingmanna hvað þeir telja vera árangur. Það sem skemmir fyrir, að mínu mati, er hvernig hefðir hafa mótast á Alþingi því nýtt fólk sem kemur inn í starfið fellur mjög auðveldlega í sama gamla farið. Þess vegna sést svo lítill munur á starfi þingsins þó það komi fullt af nýju fólki því þegar þau detta í skotgrafirnar byrjar ofbeldið, óafvitandi jafnvel.

Það verður að breyta til því annars heldur þetta bara svona áfram. Það virðist ætla að verða þó nokkur nýliðun á næsta kjörtímabili þannig að tækifærið er til staðar - það sem þarf er stór flokkur Pírata til þess að draga þingið í framtíðina og breyta vinnubrögðunum. Við þurfum gott fólk á góðum stað til þess að skila góðum árangri fyrir alla.