Efnisyfirlit

Smurbók heimilanna - meiri gæði, meira öryggi

   21. maí 2021     2 mín lestur

Í vikunni samþykkti þingið ályktun um að ástandsskýrslur eigi að fylgja með fasteignum sem eru seldar. Viðskipti með íbúðarhúsnæði eru afar vandasöm. Þau eru yfirleitt stærstu viðskipti sem einstaklingar og fjölskyldur taka þátt í á ævi sinni og mikill hluti fjármuna þeirra oftast undir. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er oftast einnig fjárfesting í heimili. Afar mikilvægt er að reglur um slík viðskipti auki fyrirsjáanleika og öryggi neytenda og dragi úr tjóni og óþörfum deilu- og dómsmálum. Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að fólk þurfi að þola íveru í heilsuspillandi húsnæði en nokkur vitundarvakning hefur orðið um þær hættur sem af því stafa. Hingað til hafa ekki verið gerðar teljandi úrbætur á þessu sviði.

Á árunum 2010 - 2017 voru alls 102 dómar í héraði sem fjölluðu um galla í fasteignum. Gróflega má áætla málskostnað í þeim málum upp á um tvær og hálfa milljón á hvert mál. Samið er, utan dómstóla, um fjölda annara mála. Vandinn er augljós og allt of algengt að vandi komi upp vegna leyndra galla.

Lausnin við þessu er að ástandsskýrslur fylgi með sölugögnum fasteigna og að útbúin verði viðhaldsdagbók þar sem hægt er að skrá allar meiri- og minniháttar viðgerðir og viðbætur. Nokkurs konar smurbók fyrir heimilið. Við höfum lengi haft smurbækur í bílum, þær veita öryggi þegar við kaupum og seljum bílinn okkar. Af hverju erum við ekki með sambærilegt fyrirkomulag fyrir stæstu fjárfestingu flestra landsmanna? Svarið er að nú hefur Alþingi samþykkt að fá ráðherra til þess að bjóða rafrænt upp á slíka viðhaldsdagbók.

Viðhaldsdagbók getur einnig gert margt fleira en að skrá bara viðhald og viðgerðir. Eins og er þá er virðisaukaskattur endurgreiddur af viðgerðum og álíka. Ef slíkt er skráð í viðhaldsdagbók með tilheyrandi gögnum þá gæti fólk sjálfkrafa sótt um endurgreiðslur virðisaukaskatts í kjölfarið. Slíkt minnkar einnig líkurnar á skattaundanskotum í svarta hagkerfinu sem getur létt á álögum annarsstaðar á móti.

Helstu áhyggjurnar sem ég hef heyrt vegna skyldu til þess að láta ástandsskýrslur fylgja með sölu fasteigna er að það hækki verðið einhvern vegin. Eins og er þá lætur kaupandi, jafnvel fleiri en einn, oft gera ástandsskýrslu. Þannig að sá kostnaður er oft til staðar nú þegar. Kannski verða þær viðameiri og dýrari þegar aukin ábyrgð er sett á úttektaraðila en gæðin og öryggið eykst á sama tíma. Öryggi sem hefur vantað fyrir ansi marga eins og Neytendasamtökin útskýra í sinni umsögn um málið: “Mörg þeirra fasteignamála er koma inn á borð sam takanna varða galla á fasteign er í ljós koma eftir afhendingu. Málin geta verið afar snúin og leitt til hárra útgjalda fyrir bæði kaupanda og seljanda.”

Meira gæði, meira öryggi. Píratar.