Í góðri trú?
Ásýnd stjórnmála og stjórnsýslu er lykilatriði þegar kemur að trausti almennings. Þetta segir skýrsla sem ríkisstjórnin lét gera í upphafi kjörtímabilsins. Vandamálið er hins vegar hvort ásýndin endurspegli reynd eða sé bara sýndarmennska.
Á undanförnum misserum hafa ýmis mál farið í gegnum þingið sem ætlað er að efla traust almennings á stjórnmálum. Þar á meðal eru lög um hagsmunaverði, þar sem ráðherra og aðstoðarmenn ráðherrar voru reyndar undanskildir og eftirlit með skráningu ráðherra var sett í hendur forsætisráðherra. Einnig voru lög um vernd uppljóstrara samþykkt, þó með þeim galla að uppljóstrarar þurfa að vera í “góðri trú” og hafi ekki aðra leið til þess að koma í veg fyrir þau brot sem uppljóstrunin á að afhjúpa.
Ég spurði forsætisráðherra á Alþingi síðastliðinn mánudag um fjármögnun héraðssaksóknara. Álagið þar hefur lengi verið mikið og ekki bætti Samherjamálið úr sök. Ég spurði ráðherrann því hvort hægt væri að tala um baráttu gegn spillingu þegar verkefnaálag saksóknara eykst bara og eykst. Ráðherra sagðist hafa fulla sannfæringu fyrir því að rannsókn á máli Samherja sé í fullum gangi, sem ég er alveg sammála. Ég held líka að þetta mál sé í eins fullum gangi og embætti héraðssaksóknara hefur svigrúm til, en hvað með öll hin málin?
Héraðssaksóknari er ekki einn í þessari stöðu. Persónuvernd er líka að drukkna. Stofnunin sem svarar nú erindum með orðunum “að vegna mikilla anna …”. Umboðsmaður Alþingis er í sömu stöðu og hefur því ekki getað sinnt frumkvæðisrannsóknum í langan tíma. Sömu sögu er að segja af fleiri mikilvægum eftirlitsstofnunum.
Það sem er á bak við ásýndina um setningu laga um hagsmunaverði og uppljóstrara og á bak við tilfærslu fjármálaeftirlitsins til Seðlabanka og skattrannsóknir frá skattrannsóknarstjóra eru spurningar um hvort það sé innihald sem réttlætir ásýndina. Ef við setjum lög sem virka ekki út af augljósum göllum eða að það vantar fjármagn til þess að sinna eftirliti og rannsóknum - er efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu ekki einmitt innihaldslaus ásýndarpólitík? Traust á stjórnmálum hefur vissulega aukist undanfarið og það skiptir máli. En það skiptir líka máli að það sé innistæða fyrir því trausti.
Það er nefnilega ekki allt innihaldslaust sem þingið afgreiðir. Langt í frá. Almennt séð skilar þingið góðu starfi en það er í einstaka málum þar sem eitthvað gerist og sama hvað, þá komast eðlileg rök ekki í gegn. Til dæmis í málum sem tengjast kvóta, eða málum sem skipta sér af hagsmunum (eða skráningu þeirra) og uppljóstrun um valdhafa.
Ásýnd skiptir máli en ein og sér er hún gagnslaus. Við verðum að eiga inni fyrir trausti og geta sýnt fram á árangur og niðurstöðu í Samherjamálinu.