Efnisyfirlit

Hertar aðgerðir á landamærunum

   23. apríl 2021     2 mín lestur

Í lok janúar voru samþykkt lög um að ríkisstjórnin gæti vísað ferðamönnum í sóttvarnahús ef ferðamaður gæti ekki fylgt lögum og reglum um sóttkví eða einangrun. Allir ættu að vita hvað gerðist í kjölfarið, stjórnvöld reyndu að skikka alla í sóttvarnahús en töpuðu því fyrir dómstólum. Hér skiptir mjög miklu máli að allar staðreyndir málsins séu á hreinu því nokkuð hefur verið um misvísandi upplýsingar hvað þetta varðar. Til að byrja með voru lögin samþykkt með þeim heimildum sem stjórnvöld báðu um. Stjórnvöld vildu geta sett fólk í sóttvarnarhús ef “í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim [reglunum], getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli settur í sóttkví eða einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi eða gripið til annarra viðeigandi aðgerða”. Það sjá allir sem vilja að þetta var svo ekki það sem stjórnvöld reyndu að gera þegar allt kom til alls og brutu þannig þær heimildir laga sem ríkisstjórnin sjálf bað um.

Aðfaranótt sumardagsins fyrsta voru samþykktar nýjar heimildir í lögum þar sem gefin var heimild til þess að skipa fólk í sóttkví í sóttvarnahúsi ef það kæmi frá svokölluðum hááættusvæðum. Það eru til málefnaleg rök fyrir hörðum aðgerðum á landamærunum og Píratar eru sammála því að það eigi að vera hægt að grípa til slíkra úrræða þegar aðstæður leyfa. Valið snýst um frjálsar ferðir innanlands á móti frjálsum ferðum milli landa. Augljóslega vegur frelsi til ferða innanlands meira og í því faraldursástandi sem nú ríkir þá er það ekki ómálefnalegt að bæta sóttvarnarhúsi við ferðatíma á milli landa. Það ætti meira að segja að vera jákvætt fyrir ferðamenn, sem geta þá notið ferðafrelsis innanlands líka.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er hins vegar að núverandi ríkisstjórn hefur ekki farið vel með ótakmarkað vald og ítrekað farið fram úr sér í hinum ýmsu málum. Nýlegasta dæmið er augljóslega fyrri tilraun til þess að senda alla í sóttvarnahús. Við viljum alls ekki lenda í því aftur að dómstólar hafni tilraunum ríkisstjórnarinnar til þess að fara að lögum og virða mannréttindi. Við viljum ná árangri. Það gerist ekki ef ríkisstjórnin klúðrar málum aftur og aftur.

Ég skil vel, miðað við ástandið, að fólki finnist það ekki merkileg mannréttindi að geta ferðast á milli landa og þurft að þola nokkra daga á sóttvarnarhóteli. Ekki miðað við fórnarkostnaðinn. Þess vegna segjum við, það er hægt að takmarka þessi réttindi en það þarf að gera það á réttan hátt, vinsamlegast ekki klúðra því. Ég sé hins vegar hvernig stjórnvöld geta klúðrað þessu á marga vegu. Það verður hægt að klúðra þessu máli á undanþágunum sem eru í lögunum eða vegna þess að barnasáttmálinn er ekki virtur. Ég vona að stjórnvöld hlusti á varúðarorðin þó að ég sé ekki bjartsýnn, af gefinni reynslu.