Efnisyfirlit

Takmarkanir á landamærum?

   20. apríl 2021     4 mín lestur

Í dag kynnti ríkisstjórnin nýjar takmarkanir á landamærunum. Þar á að leggja bann við ferðalögum eða skyldudvöl í sóttvarnahúsi frá hááhættusvæðum (1.000 smit á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar 2 vikur). Ef smitin eru á milli 750 og 1.000 þá má veita undanþágu frá dvöl í sóttvarnarhúsi ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði.

Hvað þýðir þetta eiginlega í raun og veru? Það eru tólf lönd í heiminum sem eru með fleiri en 750 smit á 100 þúsund íbúa. Það eru:

Curaçao2203.012
San Marino1785.98
Uruguay1369.97
Bermuda1246.03
Andorra946.09
Bahrain889.18
Hungary870.74
Poland842.04
Jordan819.38
Sweden788.10
France786.06
Estonia771.11
Turkey759.84

Þetta eru þó ekki löndin sem ferðamenn koma helst frá eða fara til, það eru þessi lönd í mars, samkvæmt tölum ferðamálastofu:

Land#ferðaaf 100 þús.fjöldi tilfella
Pólland1,286842.0410.83
Þýskaland600273.611.64
Eystrasaltslöndin351525.161.84
Danmörk242165.980.40
Bandaríkin236282.880.67
Frakkland218786.061.71
Bretland11959.370.07
Svíþjóð102788.100.80
Holland87572.260.50
Spánn83212.660.18
reiknaður fjöldi18.65

Einungis 3 af löndunum eru með á milli 750 og 1.000 tilfelli á 100 þús. íbúa, Pólland, Frakkland og Svíþjóð. Ef dreifingin á smitum meðal ferðamanna er sú sama og tölfræði tilfella fyrir hverja 100 þúsund íbúa er í hverju landi þá má búast við að um 19 smit hefðu greinst á landamærunum í marsmánuði frá þessum löndum. Tölurnar frá covid.is segja hins vegar að 41 smit hafi greinst frá öllum löndum, en helstu löndin voru með 72% ferða.

rHér er um að ræða um tvöfaldan mun á smitum meðal ferðamanna en tölfræði um smit í hverju landi fyrir sig segir til um. Það þýðir að ef við margföldum smitstuðul hvers lands fyrir sig með tveimur þá eru löndin sem eru í raun með yfir 1.000 tilfelli á hverju þúsund íbúa (að minnsta kosti meðal ferðamanna) mun fleiri. Þá eru það Pólland, Eystrasaltsríkin, Frakkland, Svíþjóð og Holland. Önnur lönd eru undir 750 smita viðmiðinu.

Hér ber að vekja athygli á að það geta verið margar ástæður fyrir því að það sé munur á tölunum frá hverju landi fyrir sig og þeim fjölda sem greinist á landamærunum. Það sem skiptir máli fyrir okkur er raunfjöldinn hins vegar. Þannig að þegar stjórnvöld ákveða að miða við ákveðna tölfræði og taka ekki tillit til þess samanburðar sem við höfum um raunveruleg tilfelli á landamærunum þá getur verið að það sé verið að taka ranga ákvörðun. Tölurnar virðast benda til þess.

Enn fremur má spyrja, af hverju að miða við 750 og 1.000 tilfelli á hverja hundrað þúsund íbúa? Miðað við ferðamannatölur í mars þá eiga skilyrðin við um 1.600 ferðamenn frá fjölmennustu löndunum fyrir allan mánuðinn. Ef miðað væri við raunsmit á landamærum þá væru þetta rúmlega 2.000 ferðamenn sem þyrftu að fara í sóttvarnarhús á mánuði. Að hafa viðmiðið 500 smit þá væru rétt rúmlega 2.000 að fara í sóttvarnarhús miðað við tölfræðina sem stjórnvöld miða við og tæplega 2.900 ef rauntölur á landamærum eru notaðar (svo bætist við einhver fjöldi af ferðamönnum frá öðrum löndum að vísu, en af því að það er ekki greint niður á lönd þá er ekki hægt að reikna það nægilega nákvæmlega út hér).

Lykilatriðið hérna er kannski fjöldi smita sem sleppur í gegn. Ef einungis er miðað við aðferðafræði stjórnvalda eru 72% smita stoppuð í sóttvarnarhúsi. Fimm smit sleppa í gegn. Ef tekið er tillit til rauntalna hins vegar, þá eru það 11 af 41 sem sleppa í gegn. Þrír fjórðu allra smita sem koma í gegnum landamærin eru stöðvuð með þessum aðgerðum. Ef miðað væri við 500 smit þá væru 84% smita stöðvuð með sóttvarnarhúsi, um 6 smit slyppu í gegn. Þegar ég á við “sleppa í gegn” þá væri samt væntanlega enn skimun í gangi sem myndi ná einhverjum af þeim smitum. Sama á við um þau smit sem munar á milli þess að hafa 500 og 750 smita viðmið.

Hér skortir mig hins vegar upplýsingar til þess að meta hversu mörg smit það þýðir að sleppi í raun og veru í gegn en mögulega eru stjórnvöld með einhvers konar mat á þeim fjölda. Það er þá tiltölulega auðvelt að reikna sig áfram með þessari aðferðafræði og segja til dæmis að 750 smita viðmiðið fækkar fjölda smita sem sleppur í gegn úr X í Y mörg smit á mánuði. 500 smita viðmið myndi lækka það niður í Z fjölda smita. Svona eiga gögnin sem stjórnvöld nota til þess að rökstyðja sín viðmið að líta út, meðal annars. Svona rökstuðning viljum við fá til þess að leggja mat á mótvægisaðgerðir stjórnvalda - en við fáum aldrei svona greiningar.