Efnisyfirlit

Ásættanlegur árangur?

   4. apríl 2021     2 mín lestur

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við faraldrinum hófust fyrir rúmu ári. Skilaboðin voru einföld: Brugðist verður við eftir þörfum. Ríkisfjármálunum verður beitt af fullum þunga.

Nýlega gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) út mat á aðgerðum Íslands í samanburði við aðrar þjóðir og þar kom Ísland ekki mjög vel út. Ríkisstjórnin andmælir og segir AGS ekki hafa tekið tillit til ýmissa aðgerða. Ég get alveg tekið undir þau andmæli EN … á sama tíma og ríkisstjórnin hreykir sér af góðum árangri þá sé ég ekki hvaða árangur það er.

Gefum okkur að það sé rétt sem forsætisráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á mánudaginn. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar séu ekki undir 2,5% af landsframleiðslu eins og AGS vill meina heldur séu þau raunar 7,5%. Sé litið til næstu fimm ára, sem er tímabil fjármálaáætlunar, hafi 9,3% af vergri landsframleiðslu ársins 2020 verið varið í beinar aðgerðir - 9,3% deilt niður á fimm ár eru 1,86% á ári. Hvað sem forsætisráðherra á við með þessum mismunandi prósentum þá skulum við gefa okkur að þetta sé rétt og spyrja hver áhrifin hafa verið. Forsætisráðherra kallar eftir því að allir mælikvarðar séu skoðaðir, ekki bara meðaltöl eins og er aðallega gert í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Allt í lagi, skoðum alla mælikvarða (varúð, fullt af tölum!).

Atvinnuleysi er 130% hærra (11% vs. 4,8%) en í upphafi árs 2020. Hlutabréf hafa hækkað um 37,4% á sama tíma. Gengið er 8,8% veikara. Verðbólga er 4,75%, án húsnæðis er verðbólgan 5%. Vísitala leiguverðs hefur lækkað um 0,7%. Launavísitala hefur hækkað um 4% og vísitala kaupmáttar hefur hækkað um 5,4%. Svarið við spurningunni um hver áhrifin hafa verið er því flókin. Kaupmáttur hefur almennt aukist en samt er 11% atvinnuleysi. Launavísitala hefur samt hækkað minna en hækkun kaupmáttar. Gengið hefur veikst meira en launavísitalan hefur hækkað.

Eina rökrétta niðurstaðan sem hægt er að lesa úr þessum tölum öllum er að sumir eru í vondum málum en aðrir hafa það bara fjandi gott. Svo gott að meðaltalið lítur betur út. Hvað þýðir það um aðgerðir ríkisstjórnarinnar? Ef það er satt sem forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin sé búin að hella 7,5% af vergri landsframleiðslu í aðgerðir gegn efnahagsvanda Kófsins þá hefur það ekki skilað sér í minna atvinnuleysi því það hefur farið vaxandi það sem af er faraldri (ekki brugðist við jafnóðum), rétt eins og verðmæti hlutabréfa. Tölurnar benda til þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið markvissar og frekar ratað þangað sem síður var þörf á aðgerðum.

Hvort sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru 2,5% eða 7,5% þá er staðan þessi: Mikið atvinnuleysi og verðbólga umfram launavísitölu. Það er raunveruleikinn sem Íslendingar búa við. Er það ásættanlegur árangur?