Efnisyfirlit

Siðareglur eða reglur til að siða?

   3. apríl 2021     2 mín lestur

Sitt sýnist hverjum um hvort þörf sé á siðareglum. Skoðanir á slíkum reglum ná allt frá því að þær séu taldar vera algjört bull yfir í óþarfa vesen, ágætis viðmið, nauðsynlegt aðhald eða stjórntæki. Það merkilega er að það hafa allir rétt fyrir sér á sama tíma. Hvernig er það hægt?

Til að byrja með þá er ekki þörf á siðareglum út um allt. Skoðanir eru auðvitað skiptar um það líka, en við getum öll verið sammála um að það eru til þær aðstæður þar sem það er engin þörf á slíkum reglum. Á sama hátt eru til aðstæður þar sem siðareglur eru allt frá því að vera hjálplegar til þess að vera nauðsynlegar.

Mikið hefur verið fjallað um siðareglur RÚV að undanförnu og eitt af lykilatriðunum þar er hver samdi siðareglurnar. Það skiptir máli af því að það getur enginn sett öðrum siðareglur. Þannig virka siðareglur ekki. Þannig reglur eru til þess að siða einhvern til. Siðareglur koma frá þeim sem ætla að fara eftir reglunum en ekki frá einhverjum öðrum. Hvað varðar siðareglur RÚV þá segja sumir að starfsmenn hafi samið þær en fulltrúi starfsmanna í þeim hópi sem vann að undirbúningi siðareglnanna segir að þær reglur séu ekki verk hópsins, “höfundanna þarf að leita annars staðar”.

Þingmenn eru einnig með siðareglur. Þær voru samþykktar af Alþingi fyrir rétt tæpum fimm árum og nýjum þingmönnum gert að skrifa undir þær siðareglur. Það er óljóst hvað gerist ef þingmaður neitar að skrifa undir. Ég skrifaði undir þær siðareglur af því að ég er sammála því sem þar kemur fram og vil sýna það fyrirfram hvernig ég hyggst sinna starfi þingmanns. Þetta eru því ekki reglur sem aðrir setja mér, þó ég hafi ekki tekið þátt í að semja þær, heldur reglur sem ég vil fara eftir. Það er það sem siðareglur snúast um.

Þess vegna tel ég nauðsynlegt að segja að það er rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum. Ég segi þetta þrátt fyrir að ég viti að þessi ummæli hafi verið sögð brjóta gegn siðareglum alþingismanna - vegna þess að ummælin voru og eru rökstudd; af viðurkenningu Ásmundar í Kastljósi og síðar með endurgreiðslu á umræddum akstursgreiðslum. Ég segi þetta án þess að hafa aðgang að neinum öðrum gögnum en hafa birst opinberlega í fyrirspurnum mínum til þingforseta. Ég segi þetta af þvi að það ætti að vera öllum augljóst að niðurstaða siðanefndar um þessi ummæli er staðreyndalega röng.

Siðareglur eru almenn viðmið um hegðun og tjáningu. En ef túlkun þeirra byggist hins vegar á bókstafnum en ekki samhengi glatast hæðni og staðreyndir. Þannig verða til reglur sem eru notaðar til þess að siða aðra til og ganga á stjórnarskrárbundin réttindi þeirra.