Efnisyfirlit

Verkefni næstu ára

   15. mars 2021     2 mín lestur

Augljósa verkefni næstu ára er að glíma við afleiðingarnar af Kófinu. Nokkur hundruð milljörðum hefur verið bætt í hagkerfið til þess að koma til móts við efnahagsvanda vegna hruns í ferðaþjónustunni og aðgerða vegna veirufaraldurs. Þó nokkur misskipting hefur verið í þeim mótvægisaðgerðum sem hefur verið ráðist í, til dæmis hefur mjög stór hluti þess runnið inn á húsnæðismarkaðinn og líklega valdið þó nokkurri hækkun á húsnæðisverði, séstaklega á höfuðborgarsvæðinu (7,1% hækkun á vísitölu undanfarna 12 mánuði) með tilheyrandi verðbólguáhrifum.

Verðbólgan á Íslandi er merkilegt fyrirbæri. Hún skiptir okkur miklu máli út af verðtryggingu en á sama tíma er mjög erfitt að komast að því af hverju það er verðbólga. Fjármálaráðherra segir að það sé út af launahækkunum í kjarasamningum, án þess að ég eða Gunna getum flett upp því upp og sannreynt slíkar fullyrðingar. Eina sundurliðunin á vef Hagstofunnar er vísitala með og án húsnæði en á sl. ári hefur vísitala án húsnæðis hækkað um 4,5% á meðan vísitala með húsnæði hækkað um 4,1%.

Til viðbótar við kjarasamninga og þróun á húsnæðisverði er það gengi blessaðrar krónunnar. Það er nú um 10% lægra en það var fyrir Kófið og 25% lægra en það var í upphafi kjörtímabilsins. Þeirri þróun hefur verið mætt með til dæmis vaxtalækkunum og eru stýrivextir komnir niður í 0,75% fyrir vikið.

Kannski bjóst einhver við því að verkefni næstu ára yrði að vinna íslenskt samfélag upp úr Kófinu. Jú, það þarf svo sem að gera það líka en ég hef engar áhyggjur af því verkefni. Það er verkefni sem þarf að vinna næstu áratugina meira að segja – til þess að koma í veg fyrir skerðingu á lífskjörum. Það er ekkert sem neyðir okkur til þess að fara í harðan niðurskurð eða skattahækkanir til þess að komast út úr þessari efnahagsholu sem faraldurinn hefur grafið, nema kannski úreld hagfræði fjármálaráðherra. Það verður nefnilega verkefni næstu ára, að losna út úr þeirri hugmyndafræði.

Rekstur hins opinbera snýst nefnilega ekki bara um að passa að ríkisreikningurinn sé í jafnvægi heldur að hagkerfið allt sé í jafnvægi. Það er í fína lagi að ríkisfjármálin séu í halla ef efnahagurinn er í jafnvægi, svo lengi sem það sé ekki óhófleg verðbólga eða atvinnuleysi. Það er hægt að velja þá leið að fara í harðan niðurskurð hjá hinu opinbera með tilheyrandi skell fyrir ákveðna hópa í samfélaginu – eða þá að moka smám saman ofan í holuna á mörgum árum þar sem betur er hægt að spá fyrir um áhrif þeirra viðbragða og koma til móts við þau.

Verkefni næstu ára verður að hafa fjármálaráðherra sem getur sýnt og sannað fyrir öllum hverjar eru ástæður verðbólgu. Hversu mikið er það gengisþróun að kenna? Launaþróun? Húsnæðisverði? Gagnsæi er verkefni næstu ára.