Efnisyfirlit

Litið yfir farinn veg

   11. mars 2021     4 mín lestur

Frá því að ég tók sæti á þingi hef ég lagt fram fjölda mála, nokkur oftar en einu sinni af því að málið var ekki klárað eða fyrirspurn ekki svarað. Í heildina hef ég lagt fram 417 þingmál, þarf 345 fyrirspurnir og skýrslubeiðnir. Fjöldinn segir ekki alla söguna því þó nokkrar af fyrirspurnunum eru endurtekningar á milli mismunandi ráðuneyta og stofnanna, eða um 200 af þeim. Að auki er svo fjöldi óskráðra fyrirspurna í nefndarvinnu.

Eftirlit og spurningar

Þau mál sem ég er einna stoltastur af þegar ég lít yfir farinn veg eru auðvitað þau mál sem hafa náð fram breytingum. Spurningar mínar um starfskostnað þingmanna bjuggu til það gagnsæi sem nú finnst á vef þingsins um laun þingmanna. Það er grundvallarbreyting frá því sem áður var. Spurningar mínar um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra upplýstu einnig að ráðherrar væru ekki að fara eftir þeim reglum og væri ofgreiddir dagpeningar. Samt er enn ekki búið að leiðrétta þær ofgreiðslur. Nýjustu fyrirspurnirnar sem varpa ljósi á það óskipulag sem er í fjármálum ríkisins eru fyrirspurnir um lögbundin verkefni stofnanna. Í þeim kom í ljós að þrátt fyrir að kostnaðarmat eigi að fylgja öllum laga- og reglubreytingum þá veit í raun enginn hvað lögbundin verkefni kosta í raun og veru. Samt ákveður þingið á hverju ári hversu mikill peningur á að fara í lögbundin verkefni, þrátt fyrir að vita ekki hversu mikið hvert verkefni á að kosta.

Í fjárlaganefnd sinni ég líka eftirliti. Fyrir síðustu fjárlög lagði ég fram spurningu um veiðigjöld og kostnað við rekstur hins opinbera á kvótakerfinu. Svarið var mjög áhugavert en þar kom fram að á undanförnum fimm árum hefur hlutdeild hins opinbera í arði af sjávarauðlindinni einungis verið um eitt prósent. Í fjárlaganefnd legg ég mikla áherslu á að ráðherrar skili af sér faglegum greiningum og fari eftir lögum um opinber fjármál - en töluvert vantar enn upp á hvað það varðar.

Þingmál

Þau þingmál sem ég er stoltastur af er opnun á fyrirtækjaskrá, sem hefur leitt af sér opnun á ársreikningaskrá og nú er í ferli að opna einnig hlutahafaskrá. Það gefur öllum aðgang í að skoða tengsl og stöðu fyrirtækja án þess að þurfa að borga háar upphæðir fyrir það. Opin og aðgengileg gögn eru forsenda fyrir gangsæi og trausti. Annað hjartans mál er kjötræktarmálið sem snýst um að horfa til framtíðar, vera undirbúin fyrir næstu landbúnaðarbyltingu og fá hana fram sem fyrst. Kjötræktartæknin væri eitt mikilvægasta tæki okkar til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum til framtíðar. Lykillinn að því að mannveran gæti látið náttúruna vera í friði að mestu leyti.

Ekki má gleyma frumvarpi um styttingu vinnuvikunnar, sem Alþingi samþykkti að vísa til ríkisstjórnarinnar og þingsályktun um stafrænar smiðjur. Bæði málin eru mjög mikilvæg framtíðarmál - að fólk fái meiri tíma fyrir sjálft sig og hafi aðgengi að tólum og tækjum fjórðu iðnbyltingarinnar. Alþingi tók þingsályktun um stafrænar smiðjur opnum örmum og tók stærri skref en ég þorði að vona að hægt væri að taka strax. Þrátt fyrir góðan meðbyr á þingi þá hefur hins vegar skort eftirfylgni innan ríkisstjórnar þar sem aðgerðir til þess að ná markmiðum ályktunarinnar hafa verið að skornum skammti og fjármagn sömuleiðis.

Listi þeirra þingmála sem ég hef lagt fram er langur og nær til málaflokka kosninga, fæðingarorlofs, loftslags, gagnsæis, almannatrygginga, réttinda barna, sjálfstæðis þjóðkirkjunnar og hjúskaparlaga.

Undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Mikilvægt mál sem gefur börnum eða fulltrúum þeirra færi á að áfrýja málum sínum til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna - en Ísland er einmitt stolt af því að eiga fulltrúa í þeirri nefnd. Samt mega íslensk börn ekki leita réttar síns þar. Ástandsskýrslur fasteigna - Við erum með smurdagbók í bílnum okkar, af hverju ekki viðhaldsdagbók fyrir húsnæði?

Kjötrækt

Framtíðartæknin sem minnkar landnotkun vegna dýraræktar um 99%. Minnkar losun gróðurhúsalofttegunda um 78-96% og minnkar vatnsnotkun álíka mikið. Til hvers að rækta heilan kjúkling til þess að fá læri?

Skráð sambúð fleiri en tveggja aðila

Sambönd milli tveggja eða fleiri einstaklinga eru af ýmsum toga og mörg hver eru ekki kynferðisleg á neinn hátt. Aukin þekking á kynvitund og kynhneigð undirstrikar samt sem áður fjölbreytileika mannfólksins sem myndar alls konar sambönd yfir ævina – sambönd við ættingja, vini og ástvini. Við hverja, og hversu marga, bundist er með skráðri sambúð á ekki að vera háð lögformlegum fjöldatakmörkunum. Forsendur sambúðar, hvort sem hún byggist á kynvitund, kynhneigð eða öðrum aðstæðum, koma löggjafanum ekki við.

Sjálfstæði kirkjunnar

Ekki er vitað til þess að önnur trúfélög, eða önnur félagasamtök, séu með starfsreglur sínar skráðar í landslög, umfram almenn lög um slík félög. Lagafrumvarpið jafnar því stöðu biskupsstofu og sókna landsins á við önnur trúfélög. Með þessu getur þjóðkirkjan einnig einfaldlega breytt reglum sínum á eigin forsendum og án afskipta Alþingis. Einnig er trú- og lífsskoðunarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau hyggist yfirleitt innheimta félags- og sóknargjöld.

Kosningar til Alþingis

Hér eru tvö mál, fjölgun jöfnunarsæta - sem er besta leiðin til þess að jafna atkvæðisrétt án þess að það þurfi að breyta stjórnarskránni. Hitt málið er um kosningarétt, að fólk haldi kosningarétti sem það hefur á annað borð fengið. Það kemur í veg fyrir alls konar vesen varðandi hið svokallaða “kæra sig inn á kjörskrá”.

Árangurstenging kolefnisgjalds

Ef við viljum ná árangri í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda þá gerum við það ekki bara með því að skatta kostnaðinn heldur einnig með því að umbuna fyrir betri árangur en búist er við. Þessi tillaga varð til á Lýsu, rokkhátíð samtalsins - sem haldin var á Akureyri - þar sem gestir og gangandi lögðu til hugmyndir um hvað væri hægt að gera til þess að ná árangri í loftslagsmálum. Svo var kosið um þær hugmyndir og varð þessi hugmynd hlutskörpust.

Bætt stjórnsýsla í umgengnismálum

Þetta er einn erfiðasti málaflokkur stjórnsýslunnar, deilur foreldra um umgengni og forræði yfir börnum sínum. Við þurfum að gera rosalega vel í þessum málaflokki og hér er áherslan á það sem er barni fyrir bestu, eins og kveður á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.