Efnisyfirlit

Við búum í búri

   5. mars 2021     2 mín lestur

Þegar ég var ungur sá ég apa í búri. Mér fundust aparnir mjög merkilegir og fylgdist dáleiddur með því hvernig aparnir sveifluðu sér fram og til baka og léku sér. Einn þeirra sýndi mér áhuga, af því að ég fékk mér nammi úr litlum poka sem ég var með. Apinn rétti höndina út í gegnum rimlana og litli ég gat ekki annað en gefið apanum brjóstsykursmolann sem var eftir í pokanum.

Ég man hvernig apinn hrifsaði til sín molann og dró höndina sína aftur inn í búrið. En rimlarnir á búrinu voru í kross og höndin sem hélt á molanum var of stór til þess að komast aftur inn í búrið. Apinn hélt vel utan um molann og ég sá ekki nokkra leið til þess að apinn næði hendinni aftur inn í búr án þess að sleppa molanum.

Ég áttaði mig á því að ég hefði ekki átt að gefa apanum nammi og fann ég fyrir létti vegna þess að molinn kæmist hvort eð er ekki inn í búrið. Á sama tíma vorkenndi ég apanum líka því molinn var góður. Þá kom apinn mér á óvart, gerði sér lítið fyrir og teygði hina höndina út fyrir búrið, tók molann með þeirri hendi og notaði hana til þess að stinga molanum í gegnum rimlana beint upp í munninn. Apinn kunni á búrið sitt.

Við erum öll í einhvers konar búri. Þau eru ekki öll áþreifanleg en eru alveg jafn mikil búr þrátt fyrir það. Það eru til búr fátæktar, örorku, kynferðis, kynþáttar og miklu fleiri. Undanfarið ár höfum við búið í búri Kófsins; samkomutakmarkanir, 2m reglan, grímur, viðskiptatakmarkanir og vefstreymi frá jarðarförum. Sumir mega samt hitta vinkonur sínar eða bjóða vinum sínum að gista á meðan aðrir geta ekkert gert. Atvinnuleysi og skuldir fyrir marga. Hlutabréfahækkun fyrir hina á meðan einn af hverjum fjórum á erfitt með að ná endum saman.

Við búum öll í búri en sum fá stærri búr en önnur og fleiri mola. Ríkisábyrgð og uppsagnarstyrkir eru þeir molar sem sumir fá á meðan aðrir þurfa að sætta sig við atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð. Veðmál ríkisstjórnarinnar um stuttan V-laga faraldur er löngu tapað en samt sjáum við engar aðrar aðgerðir nema að bíða eftir bóluefni og vona að ferðaþjónustan með sínum láglaunastörfum bjargi okkur aftur. Slík störf eru ekki nægilega burðug til þess að standa undir samfélagi velsældar til framtíðar. Við þurfum að gera betur.

Framtíðin býr í þekkingu, grænum iðnaði og nýsköpun í víðum skilningi. Þar finnum við farsæla framtíð í síbreytilegum heimi. Við þurfum að skipta út búrunum fyrir öryggi í húsnæðismálum því þar finnum við lykilinn að áhyggjulausu ævikvöldi, undir skuldlausu þaki. Það verður mjög mikilvægt á næstu tveimur árum að verja heimili fólks á meðan atvinnulífið er að komast aftur í gangi. Þar hafa Píratar sýnt frumkvæði á undanförnum árum og munu halda áfram að berjast.