Efnisyfirlit

Kerfislægur vandi fjölmiðla?

   24. febrúar 2021     2 mín lestur

Í leiðara Kjarnans frá 19. febrúar síðastliðnum, “Viljið þið að upplýsingafulltrúar og spunameistarar segi ykkur fréttir?” fer Þórður Snær Júlíusson yfir stöðu fjölmiðla í dag. Fjölmiðlar, sem áður voru vettvangur lýðræðislegrar samfélagsumræðu, eru nú í harðri samkeppni við samfélagsmiðla og glíma við tæknibreytingar í samskiptum manna á milli. Fjölmiðlar eru ekki lengur í ritstjórnarhlutverki gagnvart opinberri umræðu, svokallaðri “hliðvörslu”.

Jakob Bjarnar Grétarsson, fjölmiðlamaður á Vísi, fjallar um grein Þórðar á fésbókarhóp fjölmiðlanörda þar sem hann víkur að mikilvægi þess að almenningur þurfi að “vakna til vitundar um hvers kyns vá er hér fyrir dyrum”. Tilkynningar frá upplýsingafulltrúum eða stjórnmálamönnum séu ekki fréttir og falsfréttir þrífast á samfélagsmiðlum, miðlum sem stjórnmálamenn kaupa auglýsingar hjá fyrir fé sem þeir skammta sjálfum sér úr almannasjóðum.

Sama dag birtist tilkynning frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um stofnun sáttanefndar ríkisstjórnarflokkanna um hlutverk RÚV og tillögur að breytingum - eða allavega að skoða hvort það þurfi að breyta einhverju - eða hvort hægt sé að ná einhverri sátt um hverju þarf að breyta. Það er í raun mjög óljóst hvaða árangri sáttanefnd stjórnarflokkanna á í raun og veru að ná. Á að greina vandann, á að koma með tillögur til þess að leysa vandann eða á bara að ná pólitískri sátt milli stjórnarflokkanna?

Umræðan um vanda fjölmiðla fer víða, skiljanlega, því vandinn er raunverulegur. Upplýsingaóreiða og falsfréttir eru vandamál. Frjálsir fjölmiðlar ættu að gegna þar lykilhlutverki í að greina hvað er satt og hvað er logið, að leggja fram sjónarmiðin á skýran og aðgengilegan hátt. Í staðinn eru flestir fjölmiðlar annað hvort fastir í fjármögnun frá hagsmunaaðilum eða auglýsendum. Þórður Snær tekur dæmi um nýlega forsíðufrétt þar sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR var stimplaður, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, veiðiþjófur. Þær heimildir reyndust koma frá ónafngreindum aðilum og stóðust ekki nánari skoðun.

Fjármögnun með auglýsingum er svo hitt vandamálið. Ólíkt fyrri tíð þegar auglýsingar höfðu áþreifanlegt pláss í prentuðum miðlum eða tíma í útsendingu þá miðast þær nú við fjölda birtinga. Það þýðir að það er betra að gefa út margar litlar fréttir sem laða að sér marga smelli og mörk “læk”. Upp er runnið annað tímabil æsifréttamennsku með tilheyrandi látum og afleiðingum.

Eftir sitjum við öll og getum illa gert greinarmun á kostaðri birtingu, falsfrétt, tilkynningu, auglýsingu, yfirlýsingu, pistli, skoðun, orðróm eða frétt. Allir keppast við að vera fyrstir með birtingu til þess að sanka að sér smellunum á undan öðrum og enginn verður upplýstari fyrir vikið. Bara ringlaðri.