Efnisyfirlit

Orðræða um innflytjendur

   17. febrúar 2021     1 mín lestur

Í gær var umræða um málefni innflytjenda. Einfalt mál um starfsemi fjölmenningarseturs. Án þess að fara nánar í þá umræðu sem þar fór fram þá er eitt sem þarf að bæta við - tillitssemi.

Innflytjendur eru fjölbreyttur minnihlutahópur í íslensku samfélagi. Hvað þá sá hópur sem hefur komið hingað vegna ofsókna í heimalandi sínu. Þetta er hópur sem getur illa tekið þátt í opinberri umræðu og erfiðlega svarað fyrir sig, af augljósum ástæðum.

Þessi staðreynd hefur ákveðnar afleiðingar fyrir opinbera umræðu. Hún krefst þess að fjallað sé um málefni þessa hóps af þeirri tillitssemi sem nauðsynleg er til þess að þeir sem geta ekki svarað fyrir sig þurfi ekki að svara fyrir sig.

Það þýðir ekki hömlur á tjáningafrelsi eða ritskoðun. Það þýðir einfaldlega að við þurfum að vanda málflutning okkar því óvandað mál gagnvart þessum hópi getur mjög auðveldlega misskilist á alla vegu með mjög alvarlegum afleiðingum.

Sögulega séð eru nokkrir hópar sem óvönduð og fordómafull umræða hefur bitnað sérstaklega illa á. Innflytjendur, trúarhópar og fólk með öðruvísi húðlit eru það augljósustu dæmin. Sögulega séð hafa ákveðin pólitísk öfl beislað þá fordómafullu umræðu sér í vil, með slæmum og oft hörmulegum afleiðingum.

Mikil er því ábyrgð þeirra sem daðra við slíka fordóma, jafnvel þeirra sem meina vel eða daðra óvart við þá, því afleiðingunum er alveg sama um hversu vel meinandi fordómarnir voru.

Ef fólk skilur ekki mikilvægi þess að hafa tillitssemi að leiðarljósi í umræðu um innflytjendamál, þá liggur vandinn þar, í skilningsleysi á afleiðingum fordóma og óvandaðrar umræðu gagnvart hópum sem geta erfiðlega svarað fyrir sig.