Efnisyfirlit

Að þekkja muninn

   15. febrúar 2021     2 mín lestur

Um helgina slapp Trump naumlega við að vera dæmdur sekur um að hvetja til uppreisnar. 57 töldu hann sekann en 43 ekki. Einungis hefði þurft að snúa tíu atkvæðum til þess að dæma hann sekann. Það þurfti 67, aukinn meiri hluta. En var Trump í raun og veru sekur? Að mati meiri hluta var hann það en samkvæmt reglunum er hann tæknilega ekki sekur. Það er semsagt mjög mikill ágreiningur um sekt hans, rúmur meiri hluti.

Í síðustu viku var mikið talað um ágreining í þingsal, þá um ágreining vegna nýrrar stjórnarskrár. Að undanfarinn áratug hefði verið svo mikill ágreiningur að það hefði nú verið ómögulegt að koma nokkrum breytingum í gegnum þingið. Er sá ágreiningur raunverulegur eða er hann fyrirsláttur, þegar allt kemur til alls? Það er að segja, er ágreiningurinn málefnalegur eða ekki? Eða réttara sagt, í þágu hvers hefur ágreiningurinn verið málefnalegur og hvernig getur fólk utan frá þekkt muninn á ágreiningi sem er í þeirra þágu eða þágu einhverra annara?

Tökum tvö dæmi úr nýliðinni sögu stjórnmálanna. Annars vegar Landsréttarmálið og hins vegar orkupakkamálið. Vissulega var ágreiningur í Landsréttarmálinu. Við þurftum “fokking” meiri tíma, eins og komist var að orði, út af ýmsum vafaatriðum sem hafa síðan öll verið staðfest alla leið upp í efri deild Mannréttindardómstóls Evrópu. Ráðherra braut lög. Um það var ágreiningur þar sem kannski erfitt að segja til hvort væri bara pólitískt drifinn ágreiningur eða raunverulegur, lagalegur ágreiningur. Landsréttarmálið var afgreitt af þingi með eins atkvæðis meirihluta, atkvæði sjálfs dómsmálaráðherra sem málið snérist allt um.

Í orkupakkamálinu var mikið talað um ágreining samkvæmt ábendingum nokkurra umsagnaraðila. Þær ábendingar voru skoðaðar og taldar mjög ólíklegar af meira en auknum meirihluta þings. Samt var ágreiningurinn svo mikill að úr varð íslandsmet í málþófi sem bara einn flokkur tók þátt í. Ekkert af þeim hræðusluáróðri sem þar fór fram hefur raungerst síðan sú umræða fór fram.

Spurningin situr eftir - á meðan ágreiningur er í gangi, hvernig getum við þekkt muninn á raunverulegum ágreiningi og pólitískum? Muninum á málefnalegum og ómálefnalegum ágreiningi? Það er í rauninni bara ein leið til þess. Traust. Reynsla frá fyrri ágreiningsmálum. Það er besta tól okkar til þess að þekkja muninn á málefnalegum og ómálefnalegum ágreiningi, hvað gerðist síðast og þar áður. Mestar líkur eru á að það sama eigi við næst.

Þegar tvö rökræða í pólitískri umræðu hættir okkur til að halda með öðrum aðilanum af því að hann stóð sig betur, þrátt fyrir að það sé einnig möguleiki að bæði geti haft rétt fyrir sér eða bæði haft rangt fyrir sér. Þess vegna er erfitt að þekkja muninn á málefnalegri og málefnalegri umræðu.