Efnisyfirlit

Auðlindir í þjóðareign.

   27. janúar 2021     2 mín lestur

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er bætt við auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Í því frumvarpi er kveðið á um “fullt gjald til hóflegs tíma í senn” fyrir leyfi til hagnýtingar auðlinda eða takmarkaðra almannagæða. Það hefur komið fram málefnaleg gagnrýni á þetta orðalag vegna auðlinda sem leyft er að hagnýta í almannaþágu, en ekki í ábataskyni, eins og t.d. hitaveita eða berjatínsla. Þess vegna var lagt til að talað yrði um “eðlilegt gjald.”

Viðbrögðin við þeirri tillögu voru fyrirsjáanleg. Fólk hugsaði strax til sjávarauðlindarinnar og hvernig stjórnmálamenn gætu áfram hlíft stórútgerðinni við því að greiða fullt gjald af þeirri auðlind, á meðan kvótakóngar græddu á tá og fingri í staðinn. Síðan þá hefur þessi grein, fremur en allt annað, verið stíflan sem allar breytingar á stjórnarskrá stranda á.

Í umræðunni, þegar forsætisráðherra var að kynna sitt frumvarp og var að fara yfir sína útgáfu af auðlindagreininni, þar sem stendur að með lögum skal kveða á um gjaldtöku til nýtingar “í ábataskyni”, áttaði ég mig á því að þar væri ný hlið á umræðunni um fullt og eðlilegt gjald verið. Er ekki eðlilegra að auðlindir sem stjórnvöld ákveða að hagnýta - í ábataskyni - greiði fullt gjald til hóflegs tíma í senn? Aðrar auðlindir, sem eru ekki hagnýttar í ábataskyni heldur með samfélagslegum sjónarmiðum, eru þá háðar eðlilegu gjaldi.

Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur þinginu mörk. Ef þjóðin biður um fullt gjald til hóflegs tíma þá hlýtur það augljóslega að eiga við hagnýtingu auðlinda í ábataskyni. Það gæti til dæmis þýtt að handfæraveiðar gætu verið frjálsar, ef þær eru ekki í ábataskyni. Þú ferð með þín handfæri og veiðir eins og þú getur, með þeim takmörkunum sem fylgja þeim sjálfbæru veiðum, og það teldist aldrei ábatastarfsemi þó þú seljir aflann. Það er af því að allir aðrir geta gert það á sama hátt líka.

Stjórnvöld geta ákveðið að þær veiðiheimildir sem gefnar eru út í kvótakerfinu verði boðnar upp til aðila sem starfa í ábataskyni. Það er þá ákvörðun sem væri mörkuð af kröfu stjórnarskrárinnar um fullt gjald til hóflegs tíma. Þegar stjórnvöld takmarka aðgengi að hagnýtingu auðlindar í ábataskyni, á þann hátt að bara sumir komast að, þá er eðlilegt að aðgengið sé til hóflegs tíma í senn og að greitt sé fullt gjald fyrir þann aðgang.

Munurinn liggur í því hvort allir hafi aðgang eða bara sumir og hvort tilgangurinn sé ábati eða ekki. Þar liggur munurinn á fullu gjaldi eða eðlilegu. Þess vegna er augljóst að það ætti að stigskipta auðlindaákvæðinu. Almenna reglan er eðlilegt gjald fyrir nýtingu auðlinda og fullt gjald ef hagnýtingin er í ábataskyni. Slík skipting í auðlindaákvæðinu gæti verið lausnin sem losar um stífluna um breytingar á stjórnarskrá.