Efnisyfirlit

Uppstillt lýðræði.

   27. janúar 2021     2 mín lestur

Pólitík snýst að mestu leyti um völd. Ekki málamiðlanir. Sá sem hefur völd getur tekið ákvarðanir án þess að þurfa að miðla málum. Því meiri völd, þeim mun færri málamiðlanir. Á Íslandi hópa stjórnmálaflokkar sig saman í meirihlutastjórn til þess að ráða öllu. Til þess að taka öll völd. Til þess að fækka málamiðlunum.

Völd stjórnmálaflokka á Íslandi eru þannig mjög mikil, sérstaklega ef þeir standa sig vel í kosningum. Til þess að auka líkurnar á velgengni reyna flokkarnir að fá til liðs við sig nafntogaða einstaklinga í aðdraganda kosninga, því frægðarljómanum fylgir yfirleitt ákveðið traust. Vandinn er að það fylgir því líka ákveðin áhætta að stíga inn á pólitíska sviðið. Sérstaklega ef flokksfélagar telja önnur en hin nafntoguðu best til þess fallin að vinna að framgangi flokksins. Sumir flokkar leysa það vandamál með því að leyfa flokksfélögum ekki að ráða neinu um uppröðun frambjóðenda. Þannig telja flokkarnir að hægt sé að tryggja bæði framgang nafntogaðra nýliða og setu þeirra sem völdin hafa, eða öfugt. Hvað sem hentar þeim sem ráða.

Framboðslistinn sem flokkarnir leggja fram í alþingiskosningum er svo nánast óbreytanlegur. Kjósendur geta vissulega reynt að breyta röð frambjóðenda með því að strika yfir eitt nafn eða fleiri á kjörseðlinum. Það er hins vegar nánast ógerlegt að hafa áhrif á þá röðun sem flokkarnir bjóða upp á, til þess þyrfti gríðarstór hópur kjósenda þess flokks að strika allur út sömu frambjóðendur. Frambjóðendaval flokkseigenda hefur því yfirhöndina.

Í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá eru þessi völd stjórnmálaflokka minnkuð, þar sem bæði er boðið upp á einstaklingsframboð og óraðaða framboðslista. Það þýðir að kjósendur ráða röðun frambjóðenda 100% á meðan stjórnmálasamtökin ráða engu um það. Þannig geta einstaklingar komið atkvæði sínu fram hjá ægivaldi flokkakerfisins.

Þetta er meðal ótal ástæðna fyrir því að Píratar vilja nýju stjórnarskrána. Ekki aðeins til að virða lýðræðislega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu heldur jafnframt til að efla lýðræðið enn frekar. Færa völdin frá flokkunum, eigendum þeirra og reykfylltum bakherbergjum. Gefa þjóðinni tækin til að taka málin í sínar hendur þegar valdhafar klúðra málunum eða láta geðþótta ráða för.

Það þarf kjark til að treysta lýðræðinu, sem er kannski stærsta ástæðan fyrir því að gömlu flokkarnir leita leiða fram hjá því. Takmarka aðkomu eigin meðlima að vali á frambjóðendum og þykjast ekki kannast við þjóðaratkvæðagreiðslur. Allt til þess að standa vörð um völd flokksins.

Þangað til að lýðræðisumbætur nýju stjórnarskrárinnar verða að veruleika eigum við að dæma flokka út frá afstöðu þeirra til valds og lýðræðis. Velja flokka sem þora að treysta lýðræðinu. Flokka sem þora að takmarka eigin völd. Flokka eins og Pírata.