Efnisyfirlit

Staðan í Kófinu í upphafi árs.

   26. janúar 2021     4 mín lestur

Í dag spurði ég forsætisráðherra um næstu skref, hvernig við komum okkur út úr Kófinu:

Nú fer að verða ár síðan faraldurinn náði tökum á Íslandi. Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru tímabundið fjárfestingarátak í verkamannastörfum fyrir karla, markaðsátak fyrir ferðaþjónustu og viðbótarlán til fyrirtækja sem nýttust svo ekki neitt. Að lokum var barnabótaauki sem leiddi meðal annars til þess að ég fékk 30 þúsund króna eingreiðslu frá skattinum um áramótin. Ég hef ekki hugmynd hvernig sú upphæð var reiknuð út og myndi endilega vilja fræðast meira um það inni í fjárlaganefnd.

Í upphafi faraldursins var mantra ríkisstjórnarinnar að það væri betra að gera meira en minna í faraldri sem þau vonuðust til að myndi standa stutt. Fyrstu mistök ríkisstjórnarinnar voru að halda sig við að vona það besta, en undirbúa sig ekki undir það versta. Þau gerðu nefnilega ekki meira en minna, heldur vonuðu bara það besta.

Afleiðingin er rétt rúmlega 12% atvinnuleysi í lok síðasta árs. Rúmlega 21 þúsund manns atvinnulausir. Rúm 40% atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar. Þetta er fólkið sem kom hingað til þess að vinna láglaunastörfin sem þurfti til þess að Íslendingar gætu gert sem mest úr áhuga erlendra ferðamanna á landinu. Ágóðinn var okkar. Láglaunastörfin þeirra. 15% allra á aldrinum 18-24 ára eru atvinnulaus. Unga fólkið okkar sem er að byrja lífið, byrjar það án atvinnu.

Forseti, ég spyr því forsætisráðherra. Faraldurinn varð ekki stuttur. Áætlanir ríkisstjórnarinnar voru að bregðast við jafnóðum en vonir um stuttan faraldur stóðust ekki. Afleiðingin eru skuldir upp á hundruði milljarða og engar áætlanir um hvernig næstu mánuðir af Kófi munu fara með okkur.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um að grafa sig í fönn þangað til faraldurinn fer, hefur ekki virkað. Stormurinn er of langur. Því vil ég spyrja ráðherra, hvað næst? Á að tekjutengja atvinnuleysisbætur lengur? Leysist atvinnuleysið í alvöru um leið og faraldurinn klárast? Af hverju erum við ekki með planið í höndunum, plan sem er uppfært reglulega með gagnsæum hætti?

Svarið var fyrirsjáanlegur útúrsnúningur um að miklu meira hefði nú verið gert. Útúrsnúningur af því að ég fjallaði ekkert um það. Ég fjallaði um fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar. Allar aðrar aðgerðir í kjölfarið, öll “viðbrögðin” hafa aðallega verið miðuð að því að grafa sig bara betur í fönn. Greiða fyrirtækjum fyrir að segja upp fólki, tekjutengja atvinnuleysisbætur, afslættir af gjöldum, stuðningur til þess að fyrirtæki verði ekki gjaldþrota. Sumar þessar aðgerða voru vissulega nauðsynlegar og ágætar til síns brúks en þær aðgerðir sem farið var út í til þess að byggja betur upp framtíðarsamfélagið voru fáar og takmarkaðar. Sérstaklega miðað við þær upphæðir sem hafa farið í að grafa okkur í fönn. Stjórnarandstaðan lagði til 9 milljarða í margvísleg nýsköpunarverkefni um allt land, fjármagn sem ríkisstjórnin hélt fram að væri ekki hægt að koma í vinnu. Á móti hækkaði þingið nýsköpunarframlagið úr 1,5 milljörðum í 3 milljarða. Vissulega viðbót, en ekki það sem ríkisstjórnin lagði fram til að byrja með. Niðurstaðan í lok sumars var svo að það hefði auðveldlega verið hægt að koma 9 milljörðum fyrir í nýjum verkefnum. Verkefnum sem hefði komið fólki í vinnu, minnkað atvinnuleysi og byggt upp verðmæti til framtíðar til þess að við myndum koma betur út úr Kófinu.

Öll loforð um gagnsæi og upplýsingagjöf hafa verið svikin. Fjárlaganefnd berast ekki neinar upplýsingar með reglulegum hætti um hvernig farið er með þær fjárheimildir sem samþykktar voru í hin ýmsu verkefni. Á meðan fáum við sendar spurningar eins og:

  1. Hvar eru tekjufallsstyrkirnir?
  2. Af hverju bólar ekkert á viðspyrnustyrkjunum?
  3. Hvað gerist með afborganir og lagfæringar á lánum úr ferðamálasjóði og stuðningslánum?
  4. Hverjir eru að fylgja þessu eftir? Hverjir veita t.d. Skattinum aðhald þegar kemur að þessum málum?

Það er ekki skrítið að ríkisstjórnin vilji ekki segja okkur hvernig gengur því það gengur greinilega ekki neitt. Við höfum aldrei fengið í hendurnar upplýsingar um hvernig bólusetningaráætlunin á að ganga. Heilbrigðisráðherra vísar bara á vefinn https://www.covid.is/bolusetningar. Einu upplýsingarnar sem hönd er á festandi á þeim vef um bólusetningaráætlun á þeirri síðu eru:

Gert er ráð fyrir að í lok mars verði komið langt með að bólusetja alla eldri en 70 ára, en í þeim hóp er um 40.000 manns.

Það eru tveir mánuðir í það. Þýðir það að þá verði faraldurinn búinn af því að viðkvæmir hópar eru varðir og skaðinn af veikinni verði bara svipaður og af venjulegri flensu? Eða verða áfram takmarkanir af því að þessi vírus veldur vissulega mjög slæmum veikindum sem fólk er lengi að jafna sig á? Hvernig líta mánuðuðirnir eftir lok mars út? Í fréttum RÚV fyrir nokkrum vikum var sagt að stóri bóluefnaskammturinn frá Astra Zeneca kæmi ekki fyrr en í júlí, ágúst eða september (væntanlega í nokkrum sendingum á þeim tíma, en það er bara mín ásgiskun). Hefur það breyst eitthvað á undanförnum vikum því mjög fljótlega eftir þessa frétt sögðu bæði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra að þær vonuðust til þess að meirihluti landsmanna yrði bólusettur á fyrri helmingi ársins. Á hvaða upplýsingum byggir það til dæmis og af hverju fáum við ekki að sjá þetta nákvæmar en “við vonum”? Eru það falskar vonir, ágiskun, byggt á samningum? Hvað?

Annað hvort er ríkisstjórnin með planið og sýnir það ekki eða ekki með neitt plan og þykist vera með það. Ég hallast á að það sé ekkert plan, heldur sé það enn það sama og í upphafi. Þau vona það besta og að það gerist bara nokkurn vegin sjálfkrafa á meðan þau grafa sig og okkur öll bara dýpra ofan í snjóinn og bíði eftir að stormurinn gangi yfir.