Efnisyfirlit

Skuldastaða sveitarfélaga, gögn gegn áróðri.

   18. janúar 2021     2 mín lestur

Þó nokkuð er fjallað um rekstrarstöðu sveitarfélaga í pólitískri umræðu og beinist sú umfjöllun yfirleitt að Reykjavíkurborg. Þá með upphrópunum eins og “óráðsía” eða “skuldasöfnun á góðæristímum”. En hvað er satt og rétt í þessu? Hvað segja gögnin okkur í raun og veru? Eru þetta bara pólitískar hártoganir eða er reksturinn í alvöru í vanda?

Byrjum á skýrslu eftirlitsnefndar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með fjármálum sveitarfélaga. Nýjasta skýrslan er frá desember 2019. Þar er að finna tilvitnunina: “Þrátt fyrir misjafna stöðu einstakra sveitarfélaga virðist fjárhagsstaða þeirra á heildina litið vera ágæt”. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir “lítillega” hækkun á skuldum sveitarfélaga almennt.

Þessi skýrsla ætti að innihalda bestu gögnin sem við höfum til þess að bera saman stöðu sveitarfélaga. Þar kemur fram að útreiknað skuldahlutfall A-hluta Reykjavíkurborgar árið 2018 var 49%. Hvað þýðir það þá í samhengi við önnur sveitarfélög? Jú, til að byrja með var meðal skuldahlutfall sveitarfélaga 63%. Skoðum hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Í stærðarröð er Kópavogur með 94% skuldahlutfall, Hafnarfjörður með 112%, Garðabær með 59%, Mosfellsbær með 84%, Seltjarnarnes með 27% og Kjós með -4%.

Ef A og B-hlutar sveitarfélaga eru skoðaðir saman þá er staðan sú, miðað við að löglega hámarkið er 150%, að meðaltalið er 104%, Reykjavík með 135% skuldaviðmið samkvæmt lögum, Kópavogur með 109%, Hafnarfjörður 119%, Garðabær 69%, Mosfellsbær 78%, Seltjarnarnes 69% og Kjós með -27%.

Hvað þýðir þá öll þessi talnasúpa? Augljósi munurinn er hversu lágt skuldahlutfall Reykjavíkurborgar er í A-hluta miðað við hátt í A og B-hluta samtals. Skýringuna fyrir því er að finna í háum langtímaskuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hefur þróunin verið sú að skuldir hafa lækkað síðan 2009 um 90 milljarða króna.

Er þá einhver innistæða fyrir upphrópunum um óráðsíu í fjármálum borgarinnar? Ef svo, þá er frekar hægt að segja það um Kópavog, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ sem eru öll með hærra skuldahlutfall í rekstri almennrar þjónustu. Eru pólitísku upphrópanirnar út af langtímaskuldum OR? Ég ætla ekki að svara spurningunni fyrir þig kæri lesandi. Ég ætla að leyfa þér að skoða gögnin og draga eigin ályktanir. Hafðu þau í huga næst þegar þú heyrir “óráðsía” eða hvað sem það verður næst. Spurðu um samhengi og samanburð. Ekki láta skoðun þína ráðast af fyrirsögnum pólitískra andstæðinga því samhengið þar er alltaf valdabarátta.

Ekki trúa valdhöfum. Ekki trúa gagnrýnendum valdhafa. Ekki trúa upphrópunum. Gerðu kröfur um sanngjarnar upplýsingar og staðhæfingar byggðar á gögnum. Eitt einkenni lélegra pólitíkusa er að slíta hlutina úr samhengi. Krefjumst betri vinnubragða.