Efnisyfirlit

Hvað er þetta með þessi þingmannalaun?

   10. janúar 2021     4 mín lestur

Laun þingmanna og ráðherra hafa lengi verið vesen. Laun þeirra virðast hækka oft úr öllum takti við almenna launarþróun. Þar að auki voru þingmenn og ráðherrar með sérstök lífeyrisréttindi, sem voru blessunarlega lögð af í hruninu. Við sitjum þó uppi með þau réttindi sem áunnist höfðu því miður.

Það er ágætlega hjálplegt að bera saman laun tveggja hópa sem hafa ekki verkfallsrétt. Þingmenn og lífeyrisþega samkvæmt almannatryggingum. Lífeyrir almannatrygginga á samkvæmt lögum að hækka í takti við launaþróun en þó aldrei minna en verðbólguþróun. Vegna þess hvernig lagagreinin um það er orðuð þá hefur lífeyrir almannatrygginga ávallt hækkað í upphafi árs samkvæmt spá um hver launaþróun eða verðbólga verður komandi ár. Raunin hefur hins vegar verið sú að launaþróun hefur orðið mun meiri en gert var ráð fyrir. Því hafa kjör lífeyrisþega almannatryggina rýrnað í samanburði við almenna launaþróun frá aldamótum.

Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef fengið þá hefur þróunin verið sú sem fram kemur í töflunni hér fyrir neðan. Eins og sést, þá hefur hlutfallsleg hækkun lífeyris verið undir launaþróun frá aldamótum á meðan hlutfallsleg hækkun þingfararkaups verið umfram launaþróun, og munar þó nokkru þar um.

ÁrLaunaþróunHlutfallsleg hækkun lífeyris öryrkjaHlutfallsleg hækkun þingfararkaups
20006.65%10.85%3.00%
20018.86%5.67%6.90%
20027.15%8.50%3.00%
20035.61%3.20%30.80%
20044.68%3.00%0.00%
20056.75%3.50%3.00%
20052.00%
20069.54%4.00%8.20%
20062.50%
20063.00%
20063.60%
20079.02%8.56%2.90%
20072.60%
20088.12%3.50%2.00%
20083.70%
20093.94%13.98%-7.48%
20104.80%0.00%0.00%
20116.79%0.00%4.90%
20118.10%
20127.77%11.88%3.50%
20135.66%3.90%3.20%
20145.80%3.60%3.40%
20157.18%3.00%9.30%
201611.37%9.70%7.15%
201644.30%
20176.84%7.50%0.00%
20186.45%4.70%0.00%
20194.89%3.60%0.00%
20206.76%*3.50%6.30%
Samtals hækkun4.043.064.29

* Staða innan árs

Þessi niðurstaða ætti ekki að koma neinum sem fylgist með pólitískri umræðu á óvart. Það er hins vegar gott að sjá gögnin, svart á hvítu. Launaþróun hefur hækkað um 304%, lífeyrir almannatrygginga um 206% og laun þingmanna og ráðherra um 329%.

Hvað er þá til ráða fyrir lífeyri almannatrygginga þegar sú upphæð nær ekki einu sinni að fylgja launaþróun, þó skýrt sé kveðið á um það í lögunum sjálfum:

69. gr. Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Laun þingmanna hafa svo verið sjálfstætt vandamál, nú síðast 2017 út af kjararáði sem hækkaði laun þingmanna og ráðherra daginn eftir kosningar um 44.3%. Hvorki meira né minna. Sú hækkun ber helst ábyrgð á því að laun þingmanna hafa hækkað umfram launaþróun en fyrir þá hækkun hafði þingfararkaup vissulega ekki haldið í við launaþróun en hafði þó hækkað meira en lífeyrir almannatrygginga á sama tímabili.

Nýjasta lausnin er að fá Hagstofu Íslands til þess að reikna raunhækkun launa starfsmanna ríkisins og leiðrétta laun þingmanna miðað við þann útreikning. Þessi aðferð er mjög einföld, hún notar raunupplýsingar um launaþróun ríkisstarfsmanna og ætti því að vera mjög nákvæm. Helsti galli hennar er að launin eru leiðrétt hálfu ári eftir á. Þingmenn og ráðherrar þurfa því að bíða eftir sinni hækkun og eru þannig “launalægri” í smá tíma. Ekki að það muni neinu auðvitað með þau laun.

Ef þessi lausn virkar þá liggur í augum uppi að sama aðferð ætti að vera notuð til þess að raunleiðrétta lífeyri almannatrygginga. Því er ég að leggja fram frumvarp sem lagar 69. gr. laga um almannatryggingar til samræmis við þá aðferð sem notuð er til þess að hækka laun þingmanna og ráðherra.

69. gr. laganna orðast svo: Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu endurreiknaðar og þeim breytt fyrir 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum skal Hagstofan afla skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem þörf krefur. Tryggingastofnun ríkisins uppfærir krónutölufjárhæðir til samræmis við tölur Hagstofunnar áður en kemur til greiðslna fyrir júlí. Krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna skulu endurspeglaðar í krónutöluhækkunum fyrir bætur almannatrygginga, greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr.

Eina viðbótin hér er að taka skuli tillit til þess ef gerðar eru krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna. Þá skuli þær einnig eiga við lífeyri almannatrygginga en ekki vera umreiknaðar í hlutfallslega hækkun.

Áður en þessi breyting tekur gildi þá þyrfti hins vegar að raunleiðrétta lífeyrir almannatrygginga þannig að hann nái launaþróun. Svo þyrfti einnig að hækka lífeyrinn eilítið meira af því að lífeyrisþegar hafa ekki efni á því að bíða í hálft ár eftir kjarauppfærslu eins og þingmenn geta.