Efnisyfirlit

Framboðstilkynning

   10. janúar 2021     4 mín lestur

Ég, Björn Leví Gunnarsson, býð fram krafta mína og reynslu í prófkjöri Pírata fyrir komandi alþingiskosningar 2021 í Reykjavík.

Hvað geri ég?

Ég er tölvunarfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu frá Brandeis University í Bandaríkjunum. Ég var varaþingmaður Pírata á kjörtímabilinu 2013 - 2016 og þingmaður Pírata frá 2016.

Á þingi hef ég sinnt ýmsum störfum en einkum má nefna áralanga setu í fjárlaganefnd þar sem ég hef lagt mikla áherslu á fagleg vinnubrögð og gagnsæi í opinberum fjármálum. Þingmenn eiga að geta tekið upplýstar ákvarðanir um meðhöndlun á almannafé. Af þeim sökum þurfa fjármálaáætlun og fjárlög að vera tryggilega rökstudd og upplýsingar um valkosti í boði hverju sinni þurfa að vera aðgengilegar. Í fjárlaganefnd hef ég sinnt eftirliti með framkvæmd fjárlaga, hvernig farið er með almannafé. Þetta eftirlitshlutverk er grundvöllurinn að fyrirspurnum mínum til stofnana og ráðuneyta, bæði innan og utan nefndar. Í svörum hefur margt áhugavert komið fram, til að mynda um aksturskostnað þingmanna og að enginn getur sagt mér hvað lögbundin verkefni hins opinbera kosta. Þegar Alþingi samþykkir lög eru þar skilgreindar kröfur um réttindi og þjónustu. Ef við vitum aftur á móti ekki hvað það kostar að veita slíka þjónustu svo fullnægjandi sé þá vitum við ekki hvort fjármagn vanti til þess að farið sé að lögum. Birtingarmynd fjársveltis er langur biðtími eftir úrlausnum mála, óskilvirkir ferlar og illa unnin þingmál sem hafa kostað okkur milljarða.

Ég hef gegnt fleiri nefndarstörfum. Þar má nefna Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Á síðustu ráðstefnu var tillaga mín samþykkt, en hún miðaði að því að ríkisstjórnir tryggðu að þróun í máltækni gagnaðist stórum sem smáum tungumálum. Ég hef einnig setið í kjörbréfanefnd. Sú nefnd fer yfir niðurstöður kosninga og þau vafaatkvæði sem út af standa eftir yfirferð kjörstjórna og umboðsmanna. Í störfum kjörbréfanefndar hef ég ítrekað lagt áherslu á nauðsyn þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis. Fyrir Alþingi liggur nú loks frumvarp um heildarendurskoðun á kosningalögum eins og unnið hefur verið að í langan tíma. Þó nokkur atriði þarf þó enn að laga í kosningakerfinu á Íslandi, sérstaklega hvað varðar jafnt atkvæðavægi, en samhliða því þá þarf einnig að efla sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Að lokum hef ég verið áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar hef ég lagt áherslu á umhverfismál og aðkomu almennings að ákvörðunum. Ég setti upp síðu sem auðveldaði öllum að senda inn umsögn til nefndarinnar og bárust 1591 umsögn um veggjaldamálið svokallaða sem hafði ótvíræð áhrif á framgang málsins á þingi.

Ég hef lagt fram fjölmörg þingmál, alls 24 frumvörp og 8 þingsályktanir. Til viðbótar koma svo eitt frumvarp til laga og tvær tillögur til þingsályktunar í upphafi vorþings. Eitt frumvarp hefur verið samþykkt, um gjaldfrjálst aðgengi að fyrirtækjaskrá, og ein þingsályktun um aðgengi að stafrænum smiðjum um land allt. Einu frumvarpi var vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu áður en lífskjarasamningarnir voru gerðir, en það var frumvarp mitt um styttingu vinnuviku. Það telst nokkuð góður árangur fyrir þingmannamál.

Pólitískar áherslur

Ég skilgreini mig hvorki til hægri né vinstri á hinum pólitíska ás heldur legg áherslu á að hægri og vinstri lausnir geti verið mishentugar til þess að leysa hin fjölbreyttu vandamál sem við fáumst við á Alþingi. Ég reyni alltaf að finna skilvirkustu, hagkvæmustu og öruggustu leiðina til þess að tryggja grundvallarréttindi borgara og passa upp á að öll gögn og upplýsingar séu aðgengilegar eins og best verður á kosið.

Ég tel að samfélag hvíli á ákveðnum grunnstoðum og það sé skylda hins opinbera að sinna þeim grunnstoðum með eins góðu móti og mögulegt sé. Helstu grunnstoðirnar eru heilbrigðiskerfi, menntakerfi, velferðarkerfi og réttarkerfi. Þegar kemur að rekstri grunnstoða samfélagsins skal hið opinbera tryggja að sú þjónusta sé sú besta og hagkvæmasta sem landsmenn geta fengið hvort sem þjónustan er veitt beint af hinu opinbera, af einkaaðilum eða í blönduðum rekstri.

Ég starfa samkvæmt grunnstefnu Pírata í einu og öllu en geri mér jafnframt grein fyrir að áhersluatriði geta stangast á, svo sem þegar meta þarf hvort vega eigi meira, gagnsæi eða friðhelgi einkalífs. Þá er þumalputtareglan að hlutverk hins opinbera sé að verja hina valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

Ég trúi því að hrósa eigi fyrir það sem vel er gert, hver svo sem á í hlut, og viðurkenna það sem mistekst. Ég bæði gagnrýni og hrósa pólitískum andstæðingum jafnt sem samstarfsmönnum og ég vonast til þess að fá sömu meðferð ef ég á það skilið.

Verkefnið framundan

Ég tel að innsýn mín og reynsla gagnist Pírötum í komandi kosningum og í því þjónustuhlutverki sem þingstarfið er gagnvart grasrót Pírata og landsmönnum öllum. Alþingi stendur frammi fyrir gríðarlega stórum verkefnum á komandi kjörtímabili í kjölfar heimsfaraldurs. Af öðrum verkefnum má svo fyrst og fremst nefna að þingið þarf að klára frumvarp um nýja stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2012. Starfið á Alþingi er einnig gríðarlega óskilvirkt og það kemur í veg fyrir að góð mál komist í gegnum þingið. Það þarf að umbreyta þingstarfinu frá því að vera eintómt löggjafarvald sem nær ekki einu sinni að klára að afgreiða góðar hugmyndir.

Alþingi þarf að efla eftirlitshlutverk sitt gagnvart framkvæmdavaldinu. Eins og er þá tekur óskilvirkt löggjafarhlutverk Alþingis einfaldlega of mikinn tíma og fyrir vikið fær framkvæmdavaldið að starfa nær óáreitt í skjóli samtryggingar stjórnmálamanna sem skilja ekki mikilvægi gæðaeftirlits með valdhöfum. Því gæðaeftirliti eiga þingmenn að sinna, hvort sem þeir eru í þingflokkum ríkisstjórnar eða ekki. Fyrirkomulag minnihlutastjórna myndi stórbæta valdajafnvægið á milli eftirlits- og framkvæmdavalds.

Á næsta kjörtímabili er lýðræðisleg skylda þingsins að klára endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Ég mun þó óháð öllu leggja áherslu á að þingið starfi samkvæmt þeim lýðræðislegu gildum sem er að finna í nýrri stjórnarskrá um frumkvæði almennings og málskotsrétt þrátt fyrir að ekki sé búið að innleiða þau réttindi í lög.

Ég segi það svo skýrt hér með: Hætti ég af einhverjum ástæðum í Pírötum, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, þá segi ég þar með af mér þingmennsku. Ég er á þingi sem fulltrúi ykkar.

Með þökk fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt hingað til,
Björn Leví Gunnarsson