Efnisyfirlit

Topp maður - flopp stjórnmálamaður

   29. desember 2020     2 mín lestur

“Topp maður”, var athugasemd á samfélagsmiðlum undir frétt af sóttvarnabroti fjármálaráðherra. Þetta er mjög merkileg fullyrðing í samhengi þeirra atburða sem við erum að ganga í gegnum. Í samhengi þeirra hegðunar sem birtist okkur á aðfangadagsmorgun.

Í kjölfar fyrstu frétta af málinu, þar sem óljóst var hvaða ráðherra hafði sótt fjölmennt teiti í miðbænum, þá hefur komið fram afsökunarbeiðni um að húsið hafi fyllst á þeim 15 mínútum sem ráðherra var í samkvæminu. Afsökunarbeiðni sem lætur sóttvarnabrotið líta út fyrir að vera yfirsjón og óheppilegt hliðarspor í annars vel heppnuðum kúlujólum.

Dagbók lögreglu og vitni lýsa atburðum Þorláksmessu hins vegar á annan hátt. Húsið hafi verið troðfullt þegar ráðherra bar að garði og hann hafi verið þar nær klukkutíma en 15 mínútum. Ekki er nóg með að ráðherra hafi þannig brotið sóttvarnalög heldur er afsökunarbeiðnin full af rangfærslum um atvik máls.

Topp maður.

Ég efast ekki um að sá sem gegnir stöðu fjármálaráðherra sé ágætis faðir, afi og eiginmaður. Að hann reynist vinum og fjölskyldu vel og sé í allan stað topp maður á þeim vettvangi. Slík ágæti yfirfærast hins vegar ekki sjálfkrafa yfir í pólitíkina. Að vera góður í fótbolta gerir þig ekki að góðum stjórnmálamanni. Að vera góður að baka gerir þig ekki að góðum stjórnmálamanni. Að vera hávaxinn gerir þig ekki að góðum stjórnmálamanni. Að þú klæðir þig vel gerir þig ekki að góðum stjórnmálamanni.

Kannski er líklegra að topp maður sé góður stjórnmálamaður en einhver auli en það er ekki sjálfsagt og af verkunum skulið þið þekkja þá. Það er mjög skiljanlegt að við reynum að velja topp fólk í ábyrgðarstöður. Það ætti því að vera jafn skiljanlegt að við hættum að velja fólk sem stendur ekki undir þeirri ábyrgð.

Formaður VG kallar þetta sóttvarnahliðarspor og formaður Framsóknarflokks kallar þetta óheppilegt og minnir á stóru myndina, að þegar menn hafa beðist afsökunar og útskýrt mál sitt eigi að vera svigrúm til þess að virða það og fyrirgefa. En er þetta hliðarspor eða hluti af einbeittum brotavilja? Það muna allir eftir vinkonuhittingi annars ráðherra úr sama flokki frá því rétt fyrir vetrarbylgjuna. Það ættu allir að kannast við andmæli þingmanna sama flokks um sóttvarnaaðgerðirnar. Að auki lítur út fyrir að ekki sé allt satt og rétt í afsökunarbeiðninni. Hvernig á að bera virðingu fyrir því? Hvernig á fyrirgefning að geta byggt á slíkri afsökunarbeiðni?

Já. Fjármálaráðherra er kannski topp maður. En það verður seint hægt að sýna fram á þá eiginleika á stjórnmálaferli hans, allt frá sögunni um sjóð 9 til skattaskjólskýrslna og til sóttvarnabrota. Niðurstaðan hlýtur að segja okkur að þar sé á ferð flopp stjórnmálamaður.