Efnisyfirlit

Pólitík Pírata

   18. desember 2020     1 mín lestur

Í umræðum um fjármálaáætlun í gær setti Brynjar Níelsson sig í spor kjósanda Pírata og sagðist ekki skilja pólitík okkar. Hver pólitísk stefna Pírata væri eiginlega. Honum fannst eitthvað mikið talað um “formið” og of lítið talað um pólitík í ræðunni minni.

Ég skil afskaplega vel af hverju hann er eitthvað ruglaður í ríminu því pólitík okkar er allt öðruvísi en Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan fyrir því að ég talaði svona mikið um formið er vegna þess að það skiptir svo miklu máli að gera hlutina rétt. Þar hjálpar formið og ferlarnir að koma í veg fyrir að mistök endurtaki sig ekki.

Pólitík Pírata snýst að mjög miklu leyti að reyna að gera hlutina rétt. Ekki með því að giska hvað er best heldur með því að undirbúa vel og rökstyðja. Það útilokar ekki mistök en kemur td. í veg fyrir klúður eins og Landsréttarmálið, svo augljóst dæmi sé tekið.

Ef það á að fara vel með almannafé þá þarf að sýna hvernig það er satt. Þegar það á að skipa dómara þá þarf að sýna að rétt var staðið að því. Þegar gerð er skýrsla um skattaskjól þá á að birta hana. Þegar það á að skipa í stöður á vegum hins opinbera þá eru fjölskyldumeðlimir ekki gjaldgengir.

Pólitík Pírata er ekki að búa til reglur sem henta sér og sínum, og þverbrjóta þær svo þegar á reynir eða hentar ekki. Píratar beita ekki geðþótta í ákvörðunum.

Þess vegna skil ég mjög vel að Brynjar skilji okkur ekki. Þess vegna skil ég mjög vel að stjórnlyndir stjórnmálaflokkar vilji okkur ekki í stjórnmál og finni alls konar afsakanir til þess að reyna að gera lítið úr pólitík Pírata. “Enginn leiðtogi”, er klassískt. Það er hrós, ef eitthvað. Leiðtogar hafa bara valdið vandræðum á undanförnum áratugum því við erum ekki með mikinn leiðtogakúltúr á Íslandi. Síðasta hugmyndafræðin um leiðtoga sem kolféll, mó enn vilji einhverjir máta sig inn í það hlutverk, var “sterki leiðtoginn”. Það er ekkert annað en umorðun á einræði.

Stjórnmál á Íslandi þurfa aðhald. Þau þurfa að þroskast og vaxa úr pólitík geðþótta og frændhygli. Þess vegna skil ég vel að Brynjar og félagar skilji ekki pólitík Pírata.