Efnisyfirlit

Heilbrigð höfnun

   16. desember 2020     2 mín lestur

Í pólitík er til tvenns konar samstarf. Annars vegar valdasamstarf og hins vegar málefnasamstarf. Enginn hefur nokkurn tíma útilokað samstarf um einstaka málefni. Valdasamstarf er allt annað mál. Flokkar sem hafa sýnt að þeir kunna ekki að fara með völd eiga ekkert erindi í valdastöður. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, þetta ættu að vera sjálfsögð sannindi.

En einhverra hluta vegna virkar samstarf um völd öðruvísi á Íslandi. Annað hvort gerir stjórnmálastéttin sér ekki grein fyrir því eða að valdagræðgin er einfaldlega svo mikil að allt annað fýkur út í veður og vind. Nema hvort tveggja sé.

Píratar hafa fyrir undanfarnar kosningar bent á tvo flokka sem, að gefinni reynslu, ætti ekki að treysta fyrir völdum. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn. Þessir flokkar eru ekki stjórntækir því ef upp koma svipuð mál og Landsréttarmálið, Panamaskjölin, feluleikurinn með skattaskjólsskýrsluna, uppreist æra, lögbann á fjölmiðil, bréfasamskipti um utanríkismál fram hjá þinginu, Klaustur - þá væri niðurstaðan bara á einn veg. Vantraust. Það skiptir ekki máli hvaða flokkur fer svoleiðis með vald, slíkt myndi þýða vantraust og að ráðherra axli ábyrgð.

Flokkar sem fara svona með vald, eins og ofangreind mál og fleiri eru dæmi um, þá þurfa viðbrögðin við þeim að vera höfnun. Því ef ekki er brugðist við þá endurtaka brotin sig, aftur og aftur.

Við höfum það auðvitað í huga að fólk lifir og lærir af mistökum sínum. En til þess þá verður það að byrja á því að viðurkenna mistökin. Það hefur verið tilfinnanlegur skortur á slíkri viðurkenningu á undanförnum árum, sérstaklega varðandi mál þar sem misnotkun á valdi var vandamálið.

Það þýðir hins vegar ekki að málefnalegt samstarf um einstaka mál við þessa flokka sé útilokað. Góðar hugmyndir eru góðar sama hvaðan þær koma. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn hafa hins vegar óneitanlega átt erfitt með að starfa samkvæmt því. Ef það á að tala um málefni þá er það til dæmis alltaf á forsendum Sjálfstæðisflokksins, sagt að það þurfi “víðtæka” sátt þegar flestir eru sáttir nema Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki einu sinni aukinn meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 var nóg fyrir Valhöll. Aukinn meirihluti sem telst í öllu lýðræðislegu samhengi vera víðtæk sátt.

Þess vegna er ekki hægt að tala við Sjálfstæðisflokkinn um völd og varla hægt að tala við hann um málefni. Það er því eðlilegt að hafna valdasamstarfi við flokka sem misnota vald og sýna því enga iðrun.

Ég endurtek. Það er enginn að hafna samstarfi um einstaka málefni. Bara samvinnu um valdastöður. Það þarf ekki völd til þess að koma góðum hugmyndum í framkvæmd ef fólkið sem fer með völd umgengst það af virðingu.