Efnisyfirlit

Hættum að vera meðvirk með misnotkun á valdi

   3. desember 2016     1 mín lestur

Formaður dómarafélags Íslands fjallaði í fjölmiðlum í gær um niðurstöðu mannréttindadómstóls Evrópu. Þar sagði hann að vandinn er þegar, með leyfi forseta “stjórnvöld beita einhverjum bolabrögðum til að koma sínu fólki að”.

Þrír af þeim dómurum sem Landsréttarmálið snýst um hafi verið endurskipaðir. Þau stóðu upp úr dómarasætinu sínu og settust í næsta sæti. Ímyndið ykkur hvernig þetta myndi líta út í dómsal. Sá sem stendur þar, í leit að réttlæti og sanngirni fyrir framan dómara klórar sér í hausnum og spyr, “afsakið, á ég nokkuð á hættu á því að dómarinn sé mér óvilhallur?”. Dómarinn svarar á móti, “já, afsakið”. Stendur upp og sest í stólinn við hliðina. “Nei, núna er þetta allt í lagi. Þetta var bara vandamál þegar ég sat í hinum stólnum”.

Eigum við ekki rétt á dómurum og dómstólum sem við getum treyst að komi fram við borgara landsins á réttlátann og sanngjarnan hátt? Hversu vel treystir þú dómara sem þú veist að komst þangað með pólitískum bolabrögðum? Hversu vel treystir þú dómurum sem sitja í bláum sætum? Hvernig er dómgreind þeirra dómara sem sitja í blámáluðum sætum, sem vita að allt sem þau gera litast af málningunni á stólnum þeirra? Sama hversu heiðarlega þau rækja störfin sín.

Hvítþvottur eins og stólaskipti ganga ekki upp. Blái gljáinn mun alltaf skína í gegn. Bláminn fylgir dómurunum en ekki sætunum þeirra. Það sér hver sem vill sjá það.

Það er ekki nema eitt sem er hægt að gera. Það er augljóst. Þessir dómarar verða að víkja. Það hefur verið augljóst frá upphafi. Annað sem þarf að gera er að koma í veg fyrir að flokkurinn sem hefur alltaf beitt bolabrögðum þegar það þarf, til þess að koma sínu fólki að, fái að koma nálægt völdum. Því misnotkun á valdi hefur verið einkenni Sjálfstæðisflokksins í langan tíma. Við þurfum að hætta meðvirkni með misbeitingu á valdi.