Efnisyfirlit

Loksins niðurstaða í Landsréttarmálinu

   1. desember 2020     5 mín lestur

Kjörtímabilið 2016 - 2017 var viðburðarríkt. Landsréttarmálið, uppreist æra barnaníðinga, ríkisstjórnarslit og kosningar með minnsta mögulega fyrirvara eftir að boðað hafði verið til kosninga vegna ráðherraævintýra í skattaskjólum. Í kjölfarið er mynduð ný ríkisstjórn með helstu leikurum fyrri hneykslismála. Ríkisstjórn sem ver dómsmálaráðherra vantrausti vegna þess að annars væri ríkisstjórnarsamstarfið búið. Eða eins og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir orðaði það:

Vinstri græn tóku undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sæti í ríkisstjórn vitandi af því að Hæstiréttur gæti staðfest niðurstöðu héraðsdóms. Það hefur verið margrætt af okkar hálfu. Níu þingmenn Vinstri grænna meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé undir ef vantraust verður samþykkt. Við myndum líta þannig á ef málið sneri að okkur, annað er einföldun á pólitíkinni að mínu mati.

Ég er ánægð með þetta ríkisstjórnarsamstarf. Ég vil ekki fórna góðri forystu Katrínar Jakobsdóttur því að ég trúi því einlæglega að við eigum eftir að koma mörgum góðum málum áfram í gegnum þingið enda erum við rétt að hefja vegferðina.

Og eins og Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði:

Ég mun greiða atkvæði gegn tillögunni. Hún snýst nefnilega ekki um dómsmálaráðherra eingöngu heldur í raun um ríkisstjórnina í heild. (Gripið fram í: Nei.)

Hitt sem gæti gerst væri að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgæfi ríkisstjórnina og þar með væri hún úr sögunni. Vil ég aðra ríkisstjórn án alþingiskosninga, aðra en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Mitt svar er nei.

Það er alveg ljóst að skaðinn er skeður.

Þetta er nefnilega mjög áhugavert. Skaðinn var ekki skeður. Skaðinn vatt upp á sig með niðurstöðu Hæstaréttar. Með niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og nú með úrskurði yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Þar með er skaðinn enn ekki skeður. Enn á eftir að greiða úr öllum þeim atriðum sem þessi röð ákvarðanna hefur haft í för með sér.

Sem dæmi má sjá í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2020 sem nú er í afgreiðslu þingsins

02.3 Landsréttur Gerð er tillaga um 20 m.kr. hækkun fjárveitinga til að mæta launakostnaði vegna setningar dómara í stað þeirra sem ekki hafa getað sinnt störfum sínum síðan í mars 2019 þegar dómur féll hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.

Það var ný ákvörðun að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og sama dómsmálaráðherra. Það var ný ákvörðun að halda áfram með málið eftir niðurstöðu Hæstaréttar. Það var ný ákvörðun að fara með málið alveg í yfirdeildina. Skaðinn verður meiri og meiri með hverri ákvörðunni sem er tekin. Skaði sem er fórnarkostnaður fyrir ríkisstjórnarsamstarfið að mati þessar þingmanna VG. Skaðinn á svo eftir að verða meiri þegar þarf að vinda ofan af afleiðingum ákvörðunar fyrrum dómsmálaráðherra. Skaði sem hefur stigmagnast eftir því sem lengri tími hefur liðið.

Það verður langt frá því auðvelt að vinda ofan af allri þessari vitleysu sem er búin að fá að velkjast um allan þennan tíma. Hvað með dómarana til dæmis? Nú er búið að skipa þá aftur, meðal annars vegna þess að þau voru metin hæfari vegna dómarareynslu sem þau fengu vegna ólöglegrar skipunar? Hefur það afturvirk áhrif á hæfnismat þeirra þannig að aðrir umsækjendur eiga einhvern kröfurétt? Er það sanngjarnt að þú fáir framgang vegna stöðu sem þú fékkst á ólöglegan hátt? Nei. Er það samt löglegt? Veit það ekki. Ef það er ekki sanngjarnt þá ætti það væntanlega ekki að vera löglegt.

Píratar tóku þetta mál að sér strax og ljóst var hvert stefndi. Jón Þór Ólafsson vann ötullega að málefnalegri yfirferð á málinu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fór skýrt og skilmerkilega yfir það í ræðu sinni vegna vantrauststillögu á ráðherra.

Við erum með dómsmálaráðherra sem er búinn að koma á réttaróvissu í landinu með því að skemma ferli sem allir aðrir hafa unnið að faglega. Það eru svik við þá sem unnu að þessu allar götur. Það eru svik við Alþingi. Það eru svik við samstarfsflokkana, svik við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það eru svik við þá sem vinna í stjórnsýslunni okkar við að reyna að gera faglega hluti þar og ráðleggja ráðherra. Það eru svik við dómnefndina, hvernig hefur verið komið fram við hana. Þessi ráðherra hefur svikið alla aðila í þessu ferli frá upphafi til enda, allt frá því að hún kom að því.

Nú þegar loksins er komin lokaniðurstaða í þessu máli, þegar það þarf loks að fara að gera upp málið, gefum við í þingflokki Pírata út yfirlýsingu vegna málsins.

Yfirlýsing þingflokks Pírata vegna niðurstöðu yfirdeildar MDE í Landsréttarmálinu

Niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu er enn ein staðfestingin á þriggja ára kostnaðarsamri niðurlægingu stjórnvalda. Í stað þess að hlusta á ítrekaðar viðvaranir Pírata og áköll um að standa faglega að skipan dómara ákváðu ríkisstjórnir Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur að viðhalda réttaróvissu og grafa undan trúverðugleika Landsréttar.

Þessu hefði mátt afstýra. Þau ákváðu að gera það ekki. Í stað iðrunar og umbótavilja hafa íslensk stjórnvöld staðið vörð um ólögmætar og óforsvaranlegar athafnir fyrrverandi dómsmálaráðherra. Í þrjú ár hafa þau þrjóskast við og tekið flokkshollustu og valdastóla fram yfir hagsmuni þjóðarinnar og réttarríkisins, með tilheyrandi kostnaði, réttaróvissu og orðsporshnekki fyrir Ísland.

Nú gefst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur síðasta tækifærið til að bæta ráð sitt. Píratar krefjast þess að stjórnvöld viðurkenni og vindi ofan af brotum sínum rétt eins og yfirdeildin gerir kröfu um. Stjórnvöld þurfa tafarlaust að kynna trúverðugar áætlanir um hvernig þau hyggjast uppræta réttaróvissuna sem þau sköpuðu sjálf og hvernig þau hyggjast koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Þar þarf þingið að taka fullan þátt, enda bersýnilegt af dómsorðinu að þingið brást í eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu.

Ríkisstjórnin þarf jafnframt að bregðast við niðurstöðunni án þess að grípa til sömu flóttaviðbragða og hún gerði eftir síðasta áfellisdóm Mannréttindadómstólsins: Rétt eins og þá er ekki í boði nú að neita að horfast í augu við eigin misgjörðir og reyna þess í stað að grafa undan trúverðugleika dómstólsins með dylgjum og rangfærslum. Og rétt eins og þá verða Píratar tilbúnir til þess að bregðast við öllum slíkum undanbrögðum valdhafa.

Þriggja ára réttaróvissu í íslensku réttarkerfi er ekki lokið. Nú þarf að taka á rót vandans, bregðast við af heiðarleika og ábyrgð og ganga í það verk að endurbyggja traust á réttarvörslukerfinu. Píratar munu ekki láta sitt eftir liggja og veita valdhöfum virkt aðhald nú sem aldrei fyrr.