Efnisyfirlit

Er verið að fela aðhaldskröfu?

   27. nóvember 2020     2 mín lestur

Nýlega var vakin athygli á fjárhagslegri stöðu mála hjá Landspítalanum. Spítalinn sæi fram á rúmlega fjögurra milljarða króna aðhaldskröfu á næsta ári. Þingmenn ríkisstjórnarflokka mótmæltu og sögðu að aðhaldskrafan væri bara 0,5%. Spítalinn þyrfti bara að skera niður um fjögur hundruð milljónir en ekki fjóra milljarða. Hið rétta er að hvort tveggja er satt. Það er sett 0,5% almenn aðhaldskrafa á spítalann en til þess að mæta hallarekstri spítalans þarf að nota fjárheimildir næsta árs til þess að greiða niður hallann. Ef spítalinn á að gera það á einu ári þá myndi það þýða umtalsverða þjónustuskerðingu. Spítalinn leggur til að hallinn verði hins vegar greiddur upp á þremur árum, eins og ráðherra samþykkti að ætti að gera fyrir árið 2020. Þegar þetta er skrifað hefur spítalinn hins vegar ekki fengið formlegt leyfi til þess að dreifa núverandi halla á næstu þrjú ár.

Þó það sé allrar athygli vert að spítalinn verði að fara í aðhaldsaðgerðir og skerðingu á þjónustu til þess að greiða upp núverandi halla þá er enn athyglisverðara að skoða hvers vegna spítalinn glímir við hallarekstur. Í minnisblaði spítalans sem fjárlaganefnd fór yfir með stjórnendum spítalans s.l. miðvikudag voru skilaboðin skýr. Hallarekstur spítalans sé m.a. vegna hins svokallaða fráflæðisvanda. Fólk sem hefur lokið meðferð kemst ekki í hagkvæmari umönnunarúrræði og liggur því í dýrum sjúkrahúsrýmum. Hallareksturinn megi jafnframt rekja til þess að það hefur verið erfitt að manna mikilvægar stöður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, meðal annars vegna þess hvernig stjórnvöld hafa klúðrað kjarasamningum sem hafa endað í gerðardómi. Síðast en ekki síst telur spítalinn fjármálaráðuneytið vanreikna kostnað vegna kjarasamninga. Það þýðir einfaldlega að spítalinn þarf að eyða miklu meira af fjárheimildum sínum í laun en ráðuneytið gerir ráð fyrir. Þetta hefur spítalinn útskýrt fyrir fjárlaganefnd oftar en einu sinni en einhverra hluta vegna eru ekki gerðar neinar lagfæringar eða útskýrt hvernig þessar fullyrðingar spítalans séu rangar.

Þetta er sem sagt staðan. Fjárheimildir til spítalans eru lægri en duga fyrir þjónustu. Fjármálaráðuneytið vanreiknar kostnað og gerir þannig óbeina aðhaldskröfu á spítalann og það er ekki enn búið að laga fráflæðisvandann og mönnunarvandann. Spítalinn hefur fært sannfærandi rök fyrir þessum frávikum frá fjárheimildum en hvorki heilbrigðisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið hafa svarað hvað skuli gera til þess að koma til móts við vandann. Skilaboð heilbrigðisráðherra eru að það eigi ekki að skera niður þjónustu en þau skjöl sem fjárlaganefnd hefur í höndunum benda til þess að það sé óhjákvæmilegt. Ef það gerist, þá er það pólitísk ákvörðun og ábyrgðin er pólitísk.