Efnisyfirlit

Sjálfbærni er framtíðin

   18. nóvember 2020     2 mín lestur

Haldin var sérstök umræða á þinginu í gær. Við Sara Elísa Þórðardóttir pældum aðeins í því máli og Sara flutti ræðunar í umræðunni.

Sjálfbærni er lykilorð framtíðarinnar. Án sjálfbærni göngum við á auðlindir jarðar og tækifæri komandi kynslóða. Við verðum um það bil tvöfalt fleiri á þessari jörð eftir 30 ár en við vorum fyrir 30 árum síðan. Fólk sem fæddist árið 1990 mun búa í helmingi fjölmennari heimi áður en það fer á eftirlaun.

Við sjáum nú þegar afleiðingarnar af þessari fólksfjölgun. Á undanförnum 30 árum hafa skógar á stærð við 13-falt flatarmál Íslands horfið af yfirborði jarðar. Helmingur þess svæðis fer í nýtt ræktarland og námuvinnslu.

Þau landsvæði sem breytt hefur verið úr ósnortinni náttúru í nýtingu í þágu mannkynsins eru mörg hver einstök og breytingar óafturkræfar. Þess vegna er sjálfbærni mikilvægari núna en nokkurn tíma áður og verður mikilvægari eftir því sem mannfólkinu fjölgar á þessari jörð.

Hvert okkar mun hafa helmingi minna pláss, fyrir fæðuöflun, fyrir ósnortna náttúru, fyrir samfélag manna eftir 30 ár en við höfðum fyrir 30 árum síðan. Þess vegna verðum við að skipuleggja það pláss sem við notum mjög vel, til þess að passa upp á að við göngum ekki á sjálfbærni okkar og náttúrunnar. Í þeirri skipulagningu getur ylrækt verið hluti af þeirri lausn sem við getum boðið upp á hér á Íslandi.

Ylrækt er þegar mjög mikilvægur hluti af matvælaframleiðslu á Íslandi, af matvælaöryggi okkar, en það eru einnig mörg ný spennandi verkefni komin af stað eða í bígerð. Til dæmis í hárækt eða í ræktun á fjarlægum plöntum eins og wasabi eða lárperum.

Við verðum að taka sjálfbærni alvarlega strax í dag og huga vel að skipulagi á því svæði sem við höfum til umráða. Vandamálið er hnattrænt og við verðum að sinna okkar hluta.

Ef við setjum á okkur framtíðargleraugun þá sjáum við enn meiri tækifæri í ylrækt á komandi árum. Þingmál Pírata um kjötrækt fjallar um tækniframfarir sem nýtast ekki eingöngu í ræktun á kjöti heldur getur einnig verið nýtt í framleiðslu á alls konar frumum. Möguleg gagnsemi þessarar tækni í fóðrun dýra er allrar athugunar verð. Nú þegar fiskeldi tekur fram úr fiskveiðum þarf að huga að fóðrun allra þeirra fiska. Fóður sem var áður hluti af lífríki heimshafanna kemur nú frá landi. Árið 2016 var 75% af öllu fóðri fyrir laxa í Noregi ræktað á landi. Hveiti, maís og baunir fyrir laxa.

Tæknin til að rækta kjöt notar 99% minna landrými en þarf til þess að rækta dýr og á meðan tæknin skilar okkur kannski ekki fullbúnum steikum þá gæti hún verið vel nothæf til þess að búa til dýrafóður á meðan tæknin er fullkomnuð fyrir mannlegar væntingar.

Það verður gríðarleg áskorun hjá okkur á næstu áratugum að rækta matvæli án þess að ganga á auðlindir jarðarinnar og tækifæri næstu kynslóða. Ylrækt er þar mikilvægur hluti af lausninni. Þar eru margar áskoranir sem við þurfum að glíma við, til dæmis í kostnaði á ræktun ýmissa algengra tegunda. Ættum við til dæmis að rækta kaffi á Íslandi? Það mun líklega aldrei borga sig í miðað við núverandi aðstæður vegna þess að þar sem kaffi er ræktað þá hjálpar náttúran svo mikið að framleiðslan kostar nánast ekki neitt.

Kostnaðurinn er hins vegar ósnortin náttúra og þær óafturkræfu breytingar sem við gerum til þess að geta fengið ódýrt kaffi. Er það kostnaður sem enginn á að borga?

Enginn vill dýrt kaffi en samt borgar fólk 500 kr. fyrir bollann á kaffihúsum. Þar með er ekki verið að borga fyrir notkun á ósnortinni náttúru.