Efnisyfirlit

Umhverfi okkar allra

   17. nóvember 2020     2 mín lestur

26% af öllu snjólausu landi í heiminum er notað sem beitiland. 33% af öllu ræktarlandi er notað til þess að fóðra dýr. Staðan eins og hún er í dag er ekki sjálfbær fyrir umhverfi okkar allra. Stöðugt meira landi er breytt í ræktarland fyrir stöðugt fleira fólk. Um 2050 verða um 10 milljarðar manns á jörðinni.

Á undanförnum þremur áratugum hefur mannfólki fjölgað um tvo og hálfan milljarð og á næstu þremur mun okkur fjölga um annan tvo og hálfan milljarð í viðbót eða svo. Það þýðir tvöföldun á mannfjölda á rétt rúmri hálfri öld. Fólk sem fætt er árið 1990 verður ekki komið á eftirlaun þegar sú þróun hefur átt sér stað.

Afleiðingarnar af þessari fjölgun eru margvíslegar. Frá 1990 hefur til dæmis skóglendi í heiminum minnkað um 13-falt flatarmál Íslands. Þar af hverfur um helmingur skóga fyrir ræktarlandi og jarðnámum sem rekja má til eftirspurnar vegna fólksfjölgunar. Afleiðingarnar eru margvíslegar en birtast okkur vel í tölum sem sundurliða vandann vegna loftslagsbreytinga.

Vandinn er fyrirsjáanlegur og þess vegna halda Píratar umhverfisþing n.k. laugardag. Vefstreymi verður á piratar.tv og þar kemur saman fólk úr ólíkum áttum.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnifræðum, og Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, munu fjalla um stóru myndina í umhverfis- og loftslagsmálum. Hvernig fáum við fólk til að hugsa um heildarmyndina í umhverfismálum, t.d. með því að neyta minna og velja betur? Hvaða áhrif hefur núverandi hagkerfi á hegðun okkar í loftslagsmálum? Hvernig hagkerfi myndi henta best til að reikna auðlindanotkun og sjálfbærni inn í alla hegðun okkar? Hvað er langt í að súrnun sjávar og hækkandi lofthiti leikur samfélagið okkar grátt?

Einnig munum við hlýða á framsögu frá framlínufólki í baráttunni við loftslagsbreytingar og til verndar umhverfinu. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, mun segja frá baráttu samtakanna til að vernda náttúru Íslands, Logi Unnarson Jónsson, stjórnarmaður í Hampfélaginu, mun segja frá tilraunum við ræktun hamps á Íslandi og þau miklu áhrif sem þessi planta mun hafa á líf okkar í framtíðinni, Geir Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, segir frá hárækt, lóðréttri ræktun grænmetis, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi okkar Pírata í Reykjavík, mun segja frá stórtækum áætlunum í Reykjavík sem allar miða að því að gera Reykjavík fjölbreyttari, kolefnishlutlausa og í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum.

Framsögufólk fundarins mun auðvitað svara spurningum gesta. Í framhaldi af því munu fundargestir svo vinna ályktanir fyrir fundinn sem munu verða leiðarstef Pírata í umhverfis- og loftslagsmálum.