Efnisyfirlit

Vonaði að samstaða myndi nást

   12. nóvember 2020     1 mín lestur

“Ég átti svo sem aldrei von að samstaða myndi nást”

Samt var reynt í 3 ár.

Vandinn sem forsætisráðherra á við að glíma hérna er að það þarf ekki samstöðu á þingi nema um eitt, að afhenta þjóðinni stjórnarskrá í samræmi við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012.

Það vita það allir sem vilja vita það að andstaða sumra flokka er ekkert nema ólýðræðisleg og á þann hátt ómálefnaleg. Það er ekkert athugavert við að hafa efnislegar athugasemdir við einstaka atriði en að koma í veg fyrir að ferlið nái fram að ganga í heild sinni er ekki hægt að flokka á vægari hátt en svik.

Það er líka þess vegna sem 3 ára tilraun til þess að ná samstöðu við flokka sem hafa engan áhuga á samstöðu er verulega óábyrg málsmeðferð. Málið byrjaði ágætlega þar sem gerð var rökræðukönnun og fleira þvíumlíkt en við tók pólitík eins og venjulega. Málinu hefur verið haldið frá þingsal fyrir utan 1. umræðu um nýja stjórnarskrá sem þingflokkar Pírata, Samfylkingarinnar, Flokks fólksins og þingmanna utan þingflokka hafa lagt fram. Í þau tvö skipti sem málið hefur verið lagt fram áður á þessu kjörtímabili festist það í nefnd og fékk ekki frekari umræðu í þingsal.

Nú ætlar forsætisráðherra að leggja fram nokkrar breytingar á stjórnarskrá sem þingmaður og verður mjög áhugavert að fylgjast með umræðum um þær tillögur. Ég giska á að þessar tillögur séu komnar fram of seint til þess að það náist að ræða þær út í þingsal. Ég efast líka um að það verði hægt að segja að tillögurnar hafi grundvallast á frumvarpi stjórnlagaráðs þegar allt kemur til alls. Ég efast líka um að þjóðin fái að velja milli útgáfu stjórnlagaráðs og þeirrar útgáfu sem þingið skilar af sér, ef málin komast það langt.

Það sem ég vona er að málin séu vel unnin, að það sé auðvelt að sýna að þau grundvallist á frumvarpi stjórnlagaráðs, uppfylli að minnsta kosti þau skilyrði og kannski gott betur. Ef svo er þá vona ég að þau nái alla leið til þjóðarinnar því góðar breytingar eiga alltaf að ná fram að ganga. Af gefinni reynslu ætla ég að leyfa mér að efast um ýmislegt hins vegar og vona að það takist að afsanna þær efasemdir mínar.