Efnisyfirlit

Von og vald

   9. nóvember 2020     2 mín lestur

Ég bjó á Vonarstræti þegar ég var í Bandaríkjunum (BNA). Ég var þar þegar Obama var kosinn og sá hvaða von fólk bar til þess sem hann hafði fram að bjóða. Ég sá líka hvernig kerfið barðist á móti því og hvernig, að lokum, það murkaði lífið úr þeirri von sem kosningabarátta Obama byggðist á.

Í BNA sá ég mjög fjölbreyttan hóp fólks. Allt frá fólki sem fékk gefins hús frá foreldrum sínum til þeirra sem voru nánast á götunni. Í Dexter park spilaði þetta fólk saman sparkbolta alla laugardaga á sumrin. Fyrrverandi hermenn, prófessor úr Brown háskólanum, yfirbruggari Revival brugghússins, fréttateymi stöðvar 12, forritarar, listamenn, verkamenn, atvinnulausir og margir fleiri. Karlar, konur, krakkar og kynsegin fólk af öllum gerðum alls staðar frá.

Eins ólikt og fólkið var, hvort sem það var demókratar, repúblikanar eða eitthvað annað þá skildu þau öll þá von sem Obama talaði um því það var eitthvað meiriháttar mikið að í BNA. Sú von sem flæddi yfir ríkin árið 2008 breyttist hins vegar í vonleysi og reiði og Bandaríkjamenn sem rekja uppruna sinn í flótta frá einræði í Evrópu brugðust við á fyrirsjáanlegan hátt.

Hvernig sem niðurstöður kosninganna í BNA hefðu verið í ár þá er nokkuð öruggt að vandamál BNA munu ekki leysast á næsta kjörtímabili. Hvorugur frambjóðandinn hafði neitt fram að færa í þá áttina, því báðir standa fyrir sitt hvort valdakerfið sem er hið raunverulega mein BNA og breytingar eru erfiðar. Grasrótarhreyfingar geta ómögulega unnið sig upp í áhrif á landsvísu. Bylgjur eins og Occupy fjara út í stærð BNA eins og gárur á vatni gera.

Í dag er ég með skrifstofu á Vonarstræti og ég sé stjórnmál BNA frá því fyrir Trump endurspeglast að vissu leyti hérna á Íslandi. Árið 2012 var gefin von um öflugra lýðræði á Íslandi. Von um skýrari ábyrgð valdhafa, þjóðareign á auðlindum og umhverfisvernd. Í staðinn fengum við litla útgáfu af Trump sem er enn að væla yfir ósanngirni að mega ekki fara með peninga í skattaskjól og segist vera fórnarlamb meintra falsfréttamiðla.

Það er eitthvað meiriháttar mikið að á landi þar sem valdið hunsar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu en ólíkt BNA eru fleiri valmöguleikar á Íslandi en tveir fulltrúar valdsins. Það er hægt að velja flokka og fólk sem hefur lofað að skila valdinu til þjóðarinnar og þá meina ég ekki þá flokka sem hafa lofað því en hætt við. Þar er vonin um sáttari framtíð, betri framtíð. Í þeirri einföldu staðreynd að valdaflokkarnir þurfa að gefa frá sér valdið til þjóðarinnar.

Það má búast við kvarti og kveini frá þeim sem eru vanir að ráða en þegar allt kemur til alls þá ræður þjóðin. Við búum í lýðræði en eins og er þá erum við í raun bara lýðræði á fjögurra ára fresti. Saman getum við gert betur.