Efnisyfirlit

Eru sóttvarnaraðgerðir rökstuddar?

   9. nóvember 2020     1 mín lestur

Þetta er ástæðan fyrir því að við kölluðum eftir því að ákvarðanir stjórnvalda væru skoðaðar nánar. Spurningin verður alltaf að vera hvort aðgerðirnar sem gripið var til hafi verið hóflegar miðað við tilefni.

Þess vegna þarf að spyrja tveggja spurninga (aðallega).

  1. Hvaða gögn höfðu stjórnvöld til þess að meta hvaða aðgerðir ætti að grípa til. Hvaða upplýsingar studdu að það var ákveðið að takmarka hópa við 50 en ekki 100? Af hverju að loka líkamsræktarstöðvum en ekki takmarka fjölda?
  2. Hvaða mat fór fram á afleiðingum þeirra aðgerða sem voru valdar?

Þetta eru upplýsingar sem stjórnvöld þurfa alltaf að hafa tiltæk. Í upphafi faraldursins þá var ákveðinn skilingur fyrir því að svörin væru ónákvæm og ekki byggð á nákvæmum upplýsingum. Það sést líka munur á þeim ákvörðunum sem eru teknar núna og voru teknar í vor. Það er búið að bæta við grímunotkun sem takmarkast við ákveðin mörk og aldur. Hvers vegna?

Réttara væri að segja að við ættum að hætta meðvirkni okkar gagnvart stjórnvöldum. Við eigum að fá þessar upplýsingar. Sóttvarnaraðgerðirnar eru bara afleiðing ákvarðanatöku stjórnvalda sem á að vera á rökum reist. Við spyrjum því, hver eru gögnin. Ef þau eru ekki til staðar eða ákvarðanirnar eru ekki grundvallaðar á rökstuddum forsendum þá eru það mistök stjórnvalda.

Við skulum því hafa orðin á réttum stöðum, Brynjar segist vera hættur meðvirkni með sóttvarnaraðgerðum sem eru ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hann ver með sinni meðvirkni. Annað hvort veit hann meira en við fáum að vita eða þá að hann er bara að giska á að aðgerðirnar séu ekki á rökum reistar. Hvort tveggja er óboðlegt. Hvað þá ef aðgerðirnar eru virkilega vel rökstuddar, þá er svona framkoma algerlega óboðleg. Ég skil hana þó, vegna þess að svörin frá stjórnvöldum hafa ekkert verið neitt voðalega skýr hvað það varðar. Kannski ætti Brynjar þá að nota stöðu sína sem stjórnarþingmaður til þess að draga betur fram þau svör og láta stjórnvöld standa undir þeirri ábyrgð sem þau taka sér.