Efnisyfirlit

Öfgar og falsfréttir

   5. nóvember 2020     1 mín lestur

Heimurinn á við mörg vandamál að stríða. Eitt þeirra eru öfgar, og að því er virðist meiri öfgar en áður. Það er hins vegar ekki rétt, maðurinn hefur oft látið leiða sig út í öfgar. Síðari heimsstyrjöldin ætti enn að vera minnisvarði um skaðsemi öfganna.

Öfgar dagsins í dag eru nákvæmlega þær sömu og alltaf áður, knúnar áfram af ótta við hið ókunna, við það sem er öðruvísi. Annar húðlitur. Önnur kynhneigð. Önnur trú. Aðrar skoðanir. Afleiðingar öfganna eru misrétti, útskúfun, einelti, stríð. Afleiðingar ákvarðanna sem eru teknar vegna ótta við hið ókunna. Ákvarðanir sem eru teknar af því að við viljum ekki skilja.

Óttinn og skilningsleysið er skiljanlegt. Það er mannlegt. Eðlilegt. Hvað við gerum til þess að yfirstíga óttann getur hins vegar verið óskiljanlegt. Ómannúðlegt. Óeðlilegt.

Það er til fólk sem kann að næra ótta okkar. Ljúga að okkur á hárréttu augnabliki þannig að við trúum bókstaflega hverju sem er. Tækin til þess að ljúga eru líka orðin gríðarlega þróuð. Það er hægt að nota þau til þess að mála raunveruleikann með efa og sýna að hvítt og gyllt sé blátt og svart.

Hvítur og gylltur kjóll

Öfgar dagsins í dag eru lygarnar sem allt of margir trúa. Jafnvel þó það sé sýnt fram á lygina svart á hvítu þá er það bara falsfrétt. Myndbandið sýnir gyllt á bláu, það sjá allir sem horfa á það. Fyrir þremur dögum síðan birtist myndband sem sýndi forsetaframbjóðanda segja “halló Minnesota” þegar það stóð augljóslega á skilti fyrir aftan hann “Flórída”. Einhverjir höfðu falsað myndbandið með einfalt markmið í huga. Að sá efa. Að snúa út úr. Að ljúga.

Það er ekki fyrir hvern sem er að greiða úr öllum þeim lygaflækjum sem heimurinn leggur fyrir framan okkur á hverjum degi. Til þess eru fjölmiðlar. Núna, meira en nokkru sinni áður þurfum við öfluga og óháða fjölmiðla. Ekki stjórnmálamenn sem simpla fjölmiðla sem falsfréttir eftir hentugleika.

falsfréttir