Efnisyfirlit

Einstakt dæmi

   2. nóvember 2020     1 mín lestur

Fyrir einungis rétt rúmum mánuði stóð til að vísa burt fjölskyldu sem kom hingað frá Egyptalandi. Fjölskyldan fékk að lokum dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt ákvörðun kærunefndar útlendingamála. Í aðdraganda þeirra niðurstöðu fengum við að heyra kunnugleg orð frá ráðamönnum; “ekki í höndum pólitíkusanna að meta einstök mál”. Þetta er ekki rétt, eða að minnsta kosti bara hálfsannleikur. Þetta er mjög hentugt máltæki fyrir pólitíkusa sem vilja ekki bera neina ábyrgð.

Að mínu mati þá sýnir þetta grundvallar misskilning á hlutverki kjörinna fulltrúa. Pólitíkin verður einmitt að meta einstök mál, það er að segja hvaða almennu reglur hægt er að draga út frá einstökum málum. Því ef almennu reglurnar okkar geta leitt af sér einstök dæmi sem brjóta gegn mannúðarsjónarmiðum þá er augljóslega eitthvað að almennu reglunum okkar. Ef við hunsum hins vegar þau einstöku mál, og þann lærdóm sem við getum dregið af þeim þá verða reglurnar okkar alltaf lélegar.

Þess vegna, einungis rétt um mánuði seinna fáum við enn eitt dæmið til okkar. Nú um fjölskyldu frá Senegal og dætur þeirra sem hafa búið hér á landi í næstum því sjö ár. Eigum við að halda bara fyrir augun, setja tappa í eyrun og vonast bara til að það komi ekki upp fleiri svona einstök mál?

Auðvitað verðum við að meta einstök mál af því að þau sýna okkur hvar kerfið er bilað. Einstök mál gefa okkur dæmi um hvernig við viljum að kerfið virki. Hvað við viljum að geti ekki gerst og hvaða réttindi við viljum tryggja. Við búum til kerfi með því að safna saman eins mörgum einstökum dæmum og við getum, þannig að við getum hannað það á þann hátt að enginn detti ofan í holur. Enn frekar, þegar upp koma ný dæmi þá þurfum við að vega og meta hvaða áhrif þau hafa á kerfið almennt. Ef einhver hefur búið hérna í næstum sjö ár, er kerfið hannað til þess að hægt sé að vísa viðkomandi úr landi?