Efnisyfirlit

Hefðir, stöðunun og íhald

   30. október 2020     2 mín lestur

Alþingi er gömul stofnun. Elsta starfandi þing heims. Það er virðingarstaða sem við eigum að vera stolt af og fara vel með. Í því felst þó ákveðin áhættuþáttur, vandamál sem er orðið mjög áberandi. Virðing og hefðir fara nefnilega mjög oft saman. Það sem einu sinni var talið virðingarvert verður að hefð. Með tíð og tíma þá haldast hefðir óbreyttar og talið að virðingin geri það líka. Með tíð og tíma breytist hins vegar samfélagið utan þingsins og hefðirnar verða að stöðnun. Stöðnun fylgir engin virðing.

Alþingi er hefðastofnun. Elsta starfandi þing heims. Hefðir geta verið mjög gagnlegar af því að þær búa til ákveðinn fyrirsjáanleika. Hefðir geta á sama tíma verið framleiðsluferli og siðareglur. Þær segja okkur að bregðast við sömu áskorunum á sama hátt og áður. Þær segja okkur að segja háttvirtur og beina orðum okkar að forseta af því að það dregur úr líkunum á persónuárásum í ræðustól. Hefðir geta þó einnig verið til trafala því að rökin fyrir tilvist hefðanna glatast oft. Ef þau hverfa er tilgangur hefðanna úreldur.

Alþingi er stöðnuð og íhaldssöm stofnun, þó svo finna megi ýmsa framþróun hér og þar innan þingsins. Þegar ég segi að Alþingi sé stöðnuð stofnun þá á ég við að hún sé það í öllum atriðum sem skipta í raun og veru máli. Pólitíkin sem þar ræður er stöðnuð. Ágætis dæmi um það er hvernig þinginu hefur mistekist að afgreiða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu á fjórum kjörtímabilum.

Þetta er samt ekki pistill um nýja stjórnarskrá, þó það séu betrumbætur í henni sem myndu rjúfa þá stöðnun sem við glímum við. Þetta er pistill um hjartað í starfsemi Alþingis, um hefðir og stöðnun í nefndarvinnu þingsins. Ég fæ allt of oft þá tilfinningu að það sé einungis verið að framfylgja hefðunum í störfum nefnda. Nokkurs konar “það verður nú að senda umsagnir og fá gesti”-hefð, þegar markmiðið er ekki að hlusta á það sem gestir hafa að segja. Til þess eins að geta merkt við það að “samkvæmt hefðum” var allt gert sem á að gera.

Ef markmiðið væri annað þá væri fyrirkomulagið öðruvísi. Við erum nefnilega ekki lengur samfélag þar sem upplýsingar ferðast á hraða bréfpósts. Þingið gæti sparað sér gríðarlegan tíma ef það myndi hagnýta sér skilvirkari samskiptamáta. Þess í stað fær það endalausar raðir af gestum sem segja bara það sem stendur í umsögnum þeirra. Ef gestirnir segja eitthvað meira þá er það hvergi skjalfest, nema ef þingmenn ákveða að heyra það sem var sagt og greina frá því án pólitískra útúrsnúninga. Það er ekki sjálfsagt.

Við getum gert betur en við gerum nú. Til þess þarf vilja til þess að viðurkenna að hefðirnar eru í raun stöðnun í okkar síbreytilega samfélagi. Til þess að gera betur þurfum við að hafna stöðnun og íhaldi.