Efnisyfirlit

Við erum Píratar

   22. október 2020     3 mín lestur

Borgararéttindi, lýðræði, gagnsæi, ábyrgð, gagnrýnin hugsun, upplýsingafrelsi, tjáningafrelsi.

Þetta eru Píratar og svo miklu, miklu meira.

Píratar voru fyrst stofnaðir í Svíþjóð (s. Piratpartiet) árið 2006 af Rick Falkvinge vegna skilningsleysi löggjafans á lögum um höfundarétt en þá var baráttan gegn ólöglegri afritun höfundaverka farin að teygja sig ansi langt inn á svið friðhelgi einstaklinga. Stjórnvöld voru þá að leggja til að stunda ætti víðtækar njósnir á netinu til þess að komast að því hverjir væru að afrita höfundaverk.

Þeir sem stunduðu það að afrita höfundaverk á ólöglegan hátt voru kallaðir “Pirates” og stjórnmálasamtökin nefndu sig eftir því uppnefni með þeim tilgangi að mæta vandamálinu þar sem það birtist. Eða eins og stofnandi Pírata sagði (í minni þýðingu):

Annað hvort köllum við okkur Pírata, og fáum að skilgreina hvað það þýðir, eða við verðum kölluð Píratar hvort eð er án þess að hafa nokkur áhrif á það. Á sama hátt og hinsegin hreyfingin eignaði sér aftur orðið hommi. Með því að eigna okkur það með stolti að vera Píratar, og með því að gera það opinberlega þá getur þú tekið það vopn frá hagsmunavörðum höfundaréttariðnaðarins. Þessa dagana eru þau að kvarta yfir því að það hafi ekki áhrif að stimpla fólk Pírata lengur

Í dag snúast stjórnmál Pírata um miklu fleira en höfundaréttarmál. Í dag snúast stjórnmál Pírata um borgararéttindi og lýðræði um nákvæmlega sömu vandamál og við rákumst á í baráttunni um nútímauppfærslu á höfundaréttarmálum. Við sáum umfang þeirra njósna sem stjórnvöld beita gagnvart borgurum sínum í uppljóstrunum Chelsea Manning og Edwards Snowden. Við höfum meira að segja nýleg dæmi um aðstoð nágrannaþjóða okkar við slíkar njósnir. Við sjáum hvernig stjórnvöld, sem eiga að vera í þjónustuhlutverki, endurtekið beita borgara sína ofbeldi, yfirgangi og útskúfun.

Það þýðir að þegar dómsmálaráðherra fer gegn faglegu mati á því hverjir eru hæfustu dómararnir þá látum við heyra í okkur. Það þýðir að þegar fjármálaráðherra stingur skýrslu um skattaskjólseignir Íslandinga undir stól þá látum við heyra í okkur. Það þýðir að þegar forstjóri Barnaverndarstofu virðist hafa haft óeðlileg afskipti vinnu barnaverndarnefnda þá látum við heyra í okkur. Og það þýðir líka að þegar lögreglumenn verða uppvísir að því að bera á sér merki sem hafa vægast sagt vafasama merkingu þá látum við líka heyra í okkur.

Við erum Píratar af því að það er mikilvægt að stíga niður fæti gagnvart ofbeldi, yfirgangi og útskúfun stjórnvalda. Það ber að taka öll slík mál alvarlega frá byrjun. Það ber að meðhöndla svo alvarleg mál af virðingu, eins og sést greinilega í svari yfirlögregluþjóns sem áttar sig fullkomlega á því hversu mikilvægt mál þetta er:

„Þær eru alveg frá því að vera allt í lagi, í það að vera í besta falli umdeildar, í það að vera algjörlega ósmekklegar,“.

Fyrirmæli hafa verið send til lögregluþjóna að það verði engir fánar eða merki sem tilheyri ekki lögreglubúningnum á fatnaði lögregluþjóna. Ásgeir segir það hafa verið gert um leið og hann hafi séð fréttir af þessu máli.

Þessi viðbrögð eru til fyrirmyndar. Næsta verk er að vinna úr því hvernig það gat á annað borð gerst að lögregluþjónar bæru á sér algjörlega ósmekklegar merkingar. Það er starf yfirmanna innan lögreglunnar, ráðherra sem æðsta yfirmanns lögreglunnar og ábyrgðaraðila og svo þingsins sem eftirlitsaðila með verkum ráðherra. Þetta verður langt frá því að vera auðvelt verkefni, enda snertir það marga viðkvæma fleti. En það er einmitt gríðarlega mikilvægt vegna þess. Vald lögreglu er mikið og ábyrgðin sú sama. Á sama hátt er eftirlitshlutverk þingsins því síður mikilvægt.

Við erum Píratar af því að við viljum að valdi fylgi ábyrgð. Við erum Píratar af því að við þorum að benda á nýju föt keisarans.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fjallar um málið í ítarlegri grein á Vísi í dag. Hvernig við nálgumst vandamálið skiptir gríðarlega miklu máli og niðurstaðan er skýr.

Ég held mig þó við fyrri staðhæfingar mínar um að merkin séu óæskileg og að notkun þeirra í röðum lögreglumanna beri með sér að það þurfi að ræða hvernig mismunandi hópar þjóðfélagsins upplifa lögregluna og hvernig hún geti unnið sem best með öllum.

Samfélagið okkar þarf því ekki fína, bláa línu. Samfélagið þarf þykkt, marglitað teppi sem hlúir að okkur öllum - saman.

Við erum Píratar