Efnisyfirlit

Málefnalegar umræður

   22. október 2020     3 mín lestur

Ég spurði sveitarstjórnarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum um stefnu stjórnvalda í sveitarstjórnarmálum. Ráðherra svaraði með því að kalla eftir málefnalegum umræðum og kvartaði yfir því að ég mætti í seinna andsvar með skrifaða punkta sem ég hefði greinilega setið yfir kvöldið áður og tekið saman allar þær dylgjur sem ætlað væri að væru öflugar.

Sveitarstjórnarráðherra segist tilbúinn í málefnalegar umræður. Ég spyr:

“Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, hefur farið yfir nokkur atriði er varða tekjustofna sveitarfélaga að undanförnu og fjárhagslegan sveigjanleika þeirra til þess að bregðast við afleiðingum af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í sóttvörnum. Staða mála hjá sveitarfélögum er vægast sagt alvarleg ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga.

Til að byrja með þá bendir hún á að rekstur sveitarfélaganna hafi ekki verið losaralegur á undanförnum árum og sveitarfélögin hafa skilað álíka rekstrarjöfnuði og ríkissjóður undanfarin ár ef frá eru taldar einskiptis tekjur ríkissjóðs vegna slitabúa föllnu bankanna. Sveitarfélög landsins hafa almennt verið vel rekin þrátt fyrir að naumt sé til þeirra skammtað. Þrátt fyrir flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga sem útskýra 18% af útgjaldaaukningu þeirra frá 2010. Ríkið leggur meira að segja aðhaldskröfu á framlög sín til þessa málaflokks til sveitarfélaganna. Aðhaldskröfu á laun.

Það er markmið stjórnvalda að gefa í upp úr niðursveiflunni. Að koma með innspýtingu og drífa allt af stað aftur. Á sama tíma sýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fjárfesting sveitarfélaga verði langt undir sögulegu meðaltali. Niðurstaðan er að þó fjárfestingar ríkisins tvöfaldist miðað við árið 2019 á næsta ári þá minnkar fjárfesting bæði sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Heildarfjárfestingin verður 15 milljörðum minni en fyrir 2 árum síðan og sambærileg við árið í ár. Það er nú öll innspýting hins opinbera sem á að koma okkur út úr kreppunni.

Ríkisstjórnin er bara að varpa ábyrgðinni og hallarekstri yfir á sveitafélögin. Það er ábyrgðarlaust og glæfralegt og það vinnur gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Það bitnar á grunnþjónustu við íbúa þessa lands, það bitnar á viðkvæmustu hópunum og það grefur undan grunnstoðum sveitafélaganna.

Hvernig getur sveitastjórnaráðherra varið jafn glæfralega og ábyrgðarlausa stefnu gagnvart sveitafélögum?”

Vissulega eru sveitarfélög misjafnlega rekin. Sum verr og sum betur. Ég vísaði í mjög góða greiningu hagfræðings sem fjallaði um sveitarfélögin í heild miðað við rekstur ríkisins. Vandamál einstakra sveitarfélaga er sjálfstætt vandamál en við stöndum núna frammi fyrir almennu vandamáli. Ég skil ekki hvernig það er ómálefnalegt að spyrja um stefnu stjórnvalda gagnvart því almenna vandamáli. Markmið stórnvalda er að koma með innspýtingu en á sama tíma er geta sveitarfélaga til þess gríðarlega takmörkuð. Einmitt út af því vandamáli sem bæði fjármálaráðherra og sveitarstjórnarráðherra vilja spyrja dýpri spurninga um. Eins og þeir hafi ekkert um það vandamál að segja, til dæmis með því að setja stefnu um þau mál.

Sveitarstjórnarráðherra finnst semsagt ómálefnalegt að hann sé spurður um hans eigin stefnu. Það er stórkostlega merkilegt. Um á þá að spyrja? Hvaða málefnalegu gögn á þá að vísa í?

Í seinna andsvari, sem áttu víst að vera öflugar dylgjur spyr ég:

“Hvernig getur það verið meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar að sveitarfélög dragi úr opinberri fjárfestingu í efnahagslegri niðursveiflu? Hvernig gengur það upp að segja “innspýting” með vinstri höndinni en “samdráttur” með þeirri hægri? Hvers konar stefna er þetta eiginlega? Bæði betra?

Það er ekki heil brú í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar. Bæta við hérna, minnka þarna. Aðhald á fatlaða, lífskjaraskerðing fyrir aldraða, uppsagnastyrkir til fyrirtækja. Meiri framkvæmdir hjá ríkinu og færri hjá sveitarfélögum. Þetta er svo sannarlega ríkisstjórn með breiða skírskotun. Ekki til hægri og vinstri heldur út og suður.

Þær eru kaldar kveðjurnar sem ráðherra sendir byggðum landsins. Stórskuldug framtíð. Það kæmi mér ekki á óvart að það myndi styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar í áformum þeirra um lögþvingaðar sameiningar. Ef sveitarfélög þurfa að skuldasetja sig fyrir rekstri verða þau enn háðari ölmusu frá ríkinu um hitt og þetta.”

Þetta er vandamálið í hnotskurn. Þetta er upptalning nokkurra atriða úr fjármálaáætlun sem passa bara alls ekkert saman við það sem ríkisstjórnin segir vera stefnu sína. Átti ég að telja upp allt? Það er ekki tími til þess á einni mínútu. Er þá eðlilegt að velja atriði sem þarf að spyrja um eða taka sem dæmi? Auðvitað. Er þetta tæmandi listi um slík dæmi? Nei.

Málið er að hið opinbera er að taka á sig skuldir til þess að gefa hagkerfinu innspýtingu. Væntanlega myndum við vilja gera það á hagkvæman og skilvirkan hátt. Stefna ríkisstjórnarinnar bendir ekki til þess heldur ber keim af máli ríkisstjórnarinnar um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga. “Samningsstaða” ríkisins er miklu sterkari ef ríkið er að “semja” við skuldug sveitarfélög. Þannig verða fjárhagslegir hvatar miklu meira aðlaðandi. Mér finnst nákvæmlega ekkert ómálefnalegt að sauma þessar staðreyndir saman, hvort sem þær eru markmið stjórnvalda að yfirlögðu ráði eða óvart. Afleiðingin er sú sama.